149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (ber af sér sakir):

Forseti. Málflutningur eins og hv. þingmaður fór með áðan er óboðlegur, það að segja að þessi breytingartillaga sem ég var í forsvari fyrir sé komin til eftir grátkór hagsmunaaðila í gærkvöldi. (Gripið fram í.) Drögin að þessari breytingartillögu, ef ég fæ að hafa hér orðið, voru kynnt nefndarmönnum, þar með talið þeim hv. nefndarmanni sem talaði hér, á föstudag.

Hagsmunaaðilar eru mjög ósáttir við þessa breytingu. Þeir telja ekki hægt að samþykkja frumvarpið af því að það sé gengið of langt gegn þeim. Ég líð það ekki að ég sé sakaður um að bregðast við einhverjum grátkór hagsmunaaðila og láta undan þegar þvert á móti er verið að sýna þeim ákveðna hörku hérna þó að það sé ekki akkúrat sú harka sem ég hefði viljað sýna.

Ég frábið mér svona málflutning. (Gripið fram í: Þú hefur gert …) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)