149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[00:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar sem hér var minnst á er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Um hana gildir trúnaður sem hefur nú verið áréttaður við nefndarmenn. Um innihald hennar ríkir þagnarskylda. Um hana fer eftir þeim lögum og reglum sem um slíkt gildir, um skýrslur frá Ríkisendurskoðun.

Ég verð því að segja að ég er pínulítið hissa ef það hefur eitthvað átt að koma inn í afgreiðslu laga um póstþjónustu, hvernig við viljum sjá lögin til framtíðar. Skýrsla Ríkisendurskoðunar fer að sjálfsögðu í eðlilegan farveg eins og aðrar skýrslur og ég veit ekki betur en að það sé búið að vísa henni til sameiginlegs fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fjárlaganefndar.