149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[00:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Um þetta mál, eins og önnur sem við erum að afgreiða, hefur náðst samkomulag varðandi þinglok. Það liggur í augum uppi að ný lög um póstþjónustu í landinu sem eiga að taka gildi 1. janúar þurfa að afgreiðast á þessu þingi. Framkvæmdarvaldið hlýtur að þurfa að hafa það svigrúm sem eftir lifir ársins til að koma í gagnið mjög veigamiklum og stórum breytingum á póstþjónustunni. Það er grundvallaratriði. Sú skýrsla sem hér um ræðir fjallar um fyrirtækið Íslandspóst. Hún fjallar ekki um þessa löggjöf. Framkvæmdarvaldið mun alveg örugglega hafa hana til hliðsjónar ef það er eitthvað sem hægt er að nýta úr henni inn í framtíðarskipulagið, auk þess sem þingið getur brugðist við í haust ef svo ber undir.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, mér þykir leitt að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir skuli dylgja um það gagnvart meiri hluta nefndarinnar og öðrum nefndarmönnum, samnefndarmönnum sínum í umhverfis- og samgöngunefnd, (Forseti hringir.) að við séum með óvönduð vinnubrögð í þessu máli. Það hefur verið vandað mjög vel til allrar vinnu málsins og ég vil þakka nefndarmönnum fyrir það góða samstarf sem við höfum átt um þetta mál sem önnur á undanförnum vikum og mánuðum.