149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta snýst að kjarna til einmitt um stöðugleika og festu í opinberri fjársýslu. Ég sleppti því að lesa það upp en get lesið núna það sem er í greinargerð með lögum um opinber fjármál, með leyfi forseta:

„Frá árinu 1992 hefur verið unnið eftir svokölluðu rammaskipulagi við fjárlagagerðina. Með innleiðingu skipulagsins var stefnt að því að allir þátttakendur í fjárlagaferlinu tækju mið af stefnumörkun ríkisstjórnar, sem fólst m.a. í ákvörðunum um útgjaldaramma, og skyldu axla ábyrgð á nauðsynlegri forgangsröðun og vali á milli verkefna. Þau markmið hafa ekki náðst að öllu leyti. Því er lagt til í frumvarpi þessu að hlutverk og ábyrgð allra sem koma að fjárlagaferlinu, hvort sem er fjárlagagerðinni eða framkvæmd fjárlaga, verði skilgreind með afdráttarlausari hætti þannig að ljóst sé hvar ábyrgðin liggur hverju sinni.“

Ég er að segja að þessi atriði vanti til að hægt sé að ná markmiðum laga um opinber fjármál, því sem fjármálaráðherra hefur áhyggjur af, sem er til að svara sveitarfélögum, borgurum þessa lands, Alþingi og því hvert hlutverk hins opinbera er í efnahagsmálunum á Íslandi.

Þegar þessi atriði vantar, kjarnaatriði í lögum um opinber fjármál, ná þau augljóslega ekki tilgangi sínum. Eins og bent er á hérna hefur verið reynt að gera þetta síðan 1992. Þetta er ekkert nýtt. Við vitum alveg hvernig fjárlagaferlið hefur verið hérna. Þetta hefur verið hálfgerð geðþóttastefna fram og til baka með freistnivanda og ég veit ekki hvað og hvað sem hefur verið notað til að lýsa því hvernig stjórn opinberra fjármála hefur verið. Þau hafa alls ekki verið í einhverjum stöðugleika. Við vitum öll hér inni að það hefur verið geðþóttastjórnun í þessum málum. Eftir að byrjað var að fara eftir lögum um opinber fjármál er gagnsæið jafnvel enn verra en það var í fjárlögum áður. Þá var mjög skýrt hver fjárheimild hvers útgjaldaliðar var. Það er það ekki lengur. Það (Forseti hringir.) hefur færst til verri vegar ef eitthvað er.