149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lýsa mig algerlega ósammála þessari niðurstöðu þingmannsins um að við náum alls ekki þeim markmiðum sem að er stefnt. Ég tel að við höfum í seinni tíð ekki séð jafn mikla breytingu á umræðu um opinber fjármál og hefur fylgt nýrri lagasetningu. Það er búið að gjörbylta, þótt ekki sé nema í þinginu, allri umræðu um fjárlagagerð og langtímaáætlanir.

Mig langar til að benda hv. þingmanni á það að tímaritið Vísbending kom út 24. maí sl. með grein eftir Gylfa Zoëga þar sem hann dásamar það hvernig við látum í fyrsta skipti þessa meginþætti hagstjórnarinnar, vinnumarkaðinn, Seðlabankann og opinber fjármál, vinna saman. Ég leyfi mér að vitna í greinina: „Hagstjórnarviðbrögðin eru eins og tekin úr kennslubók“ segir Gylfi Zoëga, vegna þess að nú hægir á og þá lækkum við skatta. Við þurfum að auka fjárfestingarstigið. Þetta stuðlaði að ábyrgri kjarasamningagerð.

Ég er því algjörlega ósammála þingmanninum og spyr enn og aftur: Ef þetta er svona hrikalega í molum, eins og hv. þingmaður er að lýsa, hvar eru afleiðingarnar? Hvar eru afleiðingar þess að við erum með allt niður um okkur í fjárstjórninni? Birtast þær eingöngu í því að við þurfum að uppfæra skjölin vegna þess að forsendurnar hafa brostið, hagspár reynst rangar? Það má í sjálfu sér harma það. En hvar eru afleiðingarnar, þessar neikvæðu afleiðingar úti í samfélaginu, af því að við tökum forsendur áætlunarinnar til endurskoðunar?

Við sögðum einfaldlega: Ef þessar forsendur ganga eftir ætlum við að gera þetta svona. Gangi þær ekki eftir gerum við þetta öðruvísi. Við erum að laga okkur að breyttum veruleika.

Það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að hins vegar er það hvernig hann sjái fram á að með óvissusvigrúmi í skuldaþróun sé hægt að hafa áhrif á afkomuna. Ég hef ekki alveg náð utan um það.