149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það heldur aldrei. Hv. þingmaður segir að þetta séu verðugar vangaveltur en þær eru líka samkvæmt lögum. Það er búið að setja þetta í lög af því að þetta er þekkt aðferð. Það er ekkert verið að finna þetta upp. Eins og ég vísaði í er frá 1992 búið að vera að reyna að koma þessu fyrirkomulagi á af góðum og gildum ástæðum. Þegar það er einmitt tekjusamdráttur, þegar fjármálaáætlun er sett upp á þennan hátt með forgangsröðunarlista og kostnaðarábatagreiningu, sjáum við strax hvaða verkefni detta úr framkvæmd. Við sjáum strax hvaða ábata við glötum og hvaða ávinning við höfum af því að skila ekki þeim afgangi sem afkoman miðaði við.

Við sjáum strax hvaða ábata við höldum þó að við tökum lán fyrir þeim framkvæmdum miðað við vextina. Við sjáum strax hvaða áhrif það hefur að bæta í ef framleiðsluspenna eykst síðan og öll verkefni verða dýrari og ábatinn af þeim minnkar. Það er það sem við græðum á því að hafa forgangsröðunarlista, kostnaðarmat og ábatagreiningu þó að það sé ekki hárnákvæmt. Við vitum alltaf að það skeikar einhverju fram og til baka, sum verkefni eru í plús og önnur í mínus og allt svoleiðis. Það er bara nokkuð sem við lærum að vinna með og lærum að gera nákvæmar eftir því sem líður á. En að gera það ekki er einfaldlega að fara ekki eftir lögunum því að það er mjög skýrt í þeim að þetta er lykilatriðið til að ná þeim markmiðum sem er talað um hérna, um stefnumiðaða áætlanagerð og upplýsta ákvarðanatöku fyrir Alþingi, um það hvernig við samþykkjum 800 milljarða og hvað það þýðir.

Stór hluti af því er lögbundin verkefni, já, og það má tvímælalaust forgangsraða og bæta skilvirkni í lögbundnum verkefnum. Það (Forseti hringir.) er alveg hluti af aðgerðum sem gætu komið upp og koma upp í breytingartillögum eins og með hert skatteftirlit. Við verðum að byrja á þessu.