149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil eiga orðastað við hv. þingmann um hans um margt fróðlegu yfirferð. Það sem ég vildi í fyrstu nefna er að mér finnst gagnrýni hans á fjármálastefnuna missa svolítið marks þegar ég les nefndarálit hans að því leyti að hann kýs að horfa fram hjá því að fjármálaráð segir í sínu áliti að að öllu samanlögðu sé réttlætanlegt að endurskoða fjármálastefnuna. Þessu vildi ég koma hér að og undirstrika það sérstaklega af því að mér fannst hv. þingmaður ekki koma því meginsjónarmiði á framfæri.

Þó að hv. þingmaður hafi, eins og hann sagði undir lok ræðu sinnar, ekki komist yfir allt álitið er ég að sjálfsögðu búinn að lesa það en mig langar að spyrja út í orð hans um framlag til ferðaþjónustu. Ég vil bara taka enn einu sinni þá umræðu upp við hv. þingmann að þar er sannarlega ekki um skerðingar að ræða. Þar er ætlunin að ganga á uppsafnaða fjármuni Flugþróunarsjóðs og þess vegna kemur fram 17% lækkun á milli ára. Í sjálfu sér er engin ástæða til að setja fjármagn í sjóð sem ekki hefur notað rými sitt og það er aðalskýringin.

Því til viðbótar er í tillögum meiri hlutans lagt til fjármagn til rannsókna í ferðaþjónustu upp á 25 milljónir á ári. Ég ætla alls ekki að halda því fram að það sé nægjanlegt en það er þó fyrsta skrefið í því að efla aftur rannsóknir í ferðaþjónustu.

Í þriðja lagi vildi ég nefna orð hans um framlög til þróunarsamvinnu sem koma í nefndaráliti hans um fjármálaáætlunina. Í fyrsta lagi er lækkun vegna minnkandi tekna og í öðru lagi er gerð millifærsla vegna framkvæmda (Forseti hringir.) á Suðurnesjum sem ég hefði haldið að hv. þingmaður myndi vilja fjalla sérstaklega um því (Forseti hringir.) að hann hefur einmitt talað mjög fyrir mikilvægi þeirra framkvæmda.