149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni andsvarið og víkja að síðustu athugasemd hans þar sem hann ræðir um það sem fram kemur í áliti mínu um þróunarsamvinnuna, að það sé verið að færa þarna til fjárframlög um rúmar 300 milljónir á ári frá eyrnamerktri þróunarsamvinnu yfir í viðhald á mannvirkjum á vegum NATO á Keflavíkurflugvelli. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að ég fagna því að setja eigi þessa auknu fjármuni í viðhald á mannvirkjum á Keflavíkurflugvelli. Ég hef talað fyrir því og ég minntist á það hérna í ræðu í gær að ég fagna þessum áformum ríkisstjórnarinnar. Ég hef talað fyrir þessu sjálfur vegna þess að þarna kemur mótframlag frá NATO og það er full þörf fyrir þetta viðhald, auk þess sem Suðurnesjamenn verða vonandi ráðnir til starfa við þau viðhaldsverkefni.

En það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna er að þarna sé verið að taka fjármuni frá þessum lið, þróunarsamvinnunni. Ég tel ekki heppilegt að gera það með þessum hætti og það getur auk þess skapað slæmt fordæmi. Vissulega er þörf á Suðurnesjum fyrir þetta verkefni en við verðum að hugsa líka um regluverkið hvað þetta varðar, að skapa ekki óheppilegt fordæmi.

Varðandi ferðaþjónustuna vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra nánar út í hverju þessi niðurskurður felst. Þá er verið að tala um þróunarsjóðinn í fluginu til að reyna að bæta flugsamgöngur til landsbyggðarinnar í millilandaflugi. Þetta er bara eitt af því sem höfum talað um í þessari vinnu, sem hefur verið mjög knöpp (Forseti hringir.) og tíminn naumur, að ekki hefði náðst að skýra ýmsa þætti nægilega út.