149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Vissulega tek ég heils hugar undir það með honum að við eigum að horfa á þessar góðu ábendingar fjármálaráðs í heildarsamhengi. Ég tel mig hafa leitast við að gera það og að ég sé ekki að taka hlutina úr samhengi en í áliti fjármálaráðs kemur fram að fjármálastjórnin sé ekki nægilega góð.

Kjarni málsins er kannski sá að við höfum verið að læra inn á lög um opinber fjármál og segja má að fjármálaráð sé líka að læra inn á lögin. Þetta er í fyrsta sinn sem reynir verulega á þessi lög, þ.e. þegar við stöndum frammi fyrir niðursveiflu sem er óljóst hversu mikil verður, hvort hún verði dýpri eða langvinnari en spár segja til um. Spárnar eru misvísandi. Það höfum við fengið að sjá. Spá Hagstofunnar er bjartsýnust af þessum spám og það er verið að styðjast við hana. Það er hægt að færa ákveðnar röksemdir fyrir því að það sé ekki í anda laganna að styðjast við bjartsýnustu spána en það er lögbundið að styðjast við þessa spá.

Við höfum spá frá Arion banka og líka frá Íslandsbanka sem eru töluvert áhyggjufyllri, ef við getum orðað það þannig, um framhaldið. Vissulega vonast maður til þess að við náum okkur fljótt á strik aftur eins og Hagstofan spáir. Það kemur bara í ljós.

Kjarni málsins er sá, hv. þingmaður, að við erum að læra á þessi lög og við eigum að taka álit fjármálaráðs alvarlega. Það eru áhöld um (Forseti hringir.) hvort það hafi verið réttmætt að endurskoða stefnuna. Það er mikilvægt að skapa ekki fordæmi í þeim efnum.