149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ánægður með að við erum sammála um að hefja álit fjármálaráðs yfir það að við nýtum það með þeim hætti að vera að fella dóma. Það er okkur afar mikilvægt í ábendingum um að styrkja þetta verkfæri fyrir vandaða fjármálastjórn og vandaða hagstjórn til lengri tíma. Það hefur nýst okkur þannig í gegnum tíðina. Í lokaorðum nefndarálits hv. þingmanns kemur fram, og það er rétt, að sú niðursveifla sem er í hagkerfinu sé ekki fullgilt tilefni til endurskoðunar, en í samhengi hlutanna við grunngildi og efnahagsframvindu — og les ég nú beint upp, með leyfi forseta, úr nefndaráliti meiri hluta um niðurstöðu fjármálaráðs:

„Ráðið telur að tilefni til endurskoðunar og að breytingar á gildandi fjármálastefnu séu í samræmi við grunngildi og skilyrði laga um endurskoðun fjármálastefnu.“

Þetta er kannski samhengi hlutanna og þetta er mikilvægt. Við tökum ábendingar fjármálaráðs mjög alvarlega og reynum að fylgja þeim. Það bendir jafnframt á þegar við erum að taka við ábendingunum og bæta úr. Nú erum við að reyna að losa um spennitreyjuna sem er veikleiki í fjármálastjórn með óvissu sem hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Það er vel.

Ég er ekki með beina spurningu fyrir hv. þingmann. Hins vegar þakka ég honum samstarfið í vinnu við umfjöllun um fjármálastefnu og fjármálaáætlun að þessu sinni.