149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Mér hefur hlotnast sá heiður að vera einn af fulltrúum hv. fjárlaganefndar. Þar hefur farið fram mikil vinna eðli málsins samkvæmt og verið stýrt af miklum myndarskap af formanni nefndarinnar, hv. þm. Willum Þór Þórssyni. Það er svo einkennileg staða að standa frammi fyrir því allt í einu núna að við þurfum að fara að endurskoða fjármálaáætlun sem við sáum bara fyrir réttum tveimur mánuðum eða svo. Síðan ríkisstjórnin kynnti fjármálaáætlunina í mars hefur ýmislegt gengið á, gjaldþrot WOW air og loðnubrestur hafa leitt til breytinga á hagspám og nú er ljóst að samdráttur verður í hagkerfinu í ár. Mig langar að bæta við að þegar við sjáum einmitt og kynnumst fjármálastefnunni í lok mars var í fyrsta lagi vitað að loðnubresturinn væri orðinn að veruleika og á þeim tímapunkti er einmitt verið að hugsa um hina alvarlegu stöðu sem upp var komin hjá flugfélaginu WOW air. Við töluðum um það á þeim tíma jafnvel að forsendur væru í raun brostnar þá þegar. Hvað um það, við höldum áfram. Sökum þessa hefur ríkisstjórnin nú kynnt breytingar á gildandi fjármálastefnu ásamt því að boða umtalsverðar breytingar á þeirri fjármálaáætlun sem lögð var fram í vor. Fyrstu drög um breytingar gáfu til kynna að skerða ætti framlög til velferðarmála um ríflega 20 milljarða kr. á gildistíma áætlunarinnar. Ríkisstjórnin hefur þó mildað höggið lítillega og látið undan þrýstingi stjórnarandstöðu og Öryrkjabandalagsins, við fengum viðbrögð vegna þessa, og hefur dregið úr þessum boðaða niðurskurði til velferðarmála þannig að nú verður hann ríflega 10 milljarðar kr. Þegar ég tala um niðurskurð í velferðarmálum er ég ekki að segja, svo það sé hafið yfir allan vafa og ég vil bara segja það við okkar minnstu bræður og systur sem búa við bág kjör og eru með sínar 212.000 kr. eftir skatta, útborgaðar, að það er ekki verið að fara að niðurgreiða, skerða eða gera neitt til að lækka þá framfærslu, alls ekki. Þegar ég tala um niðurgreiðslu er hægt að nota kannski ýmis önnur hugtök eins og samdrátt á milli áætlana. Í raun var áætlunin mjög bjartsýn og gerði ráð fyrir því að bæta í á flestum ef ekki öllum sviðum í samfélaginu út af því góðæri sem við höfðum vanist. Í staðinn fyrir að gefa aðeins í eins og áætlað var varð að stíga á bremsur eðli málsins samkvæmt. Það er þess vegna sem ég tala um niðurskurð, við getum kallað það samdrátt eða hvaðeina annað því að ég veit að hv. formanni fjárlaganefndar er meinilla við þetta hugtak þannig að ég vil helst ekki koma honum í ham út af því.

Hvað um það, áformin um aðhald finnast mér á margan hátt illa rökstudd. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til ýmsar breytingar á fjármálaáætlun án þess að þær séu rökstuddar með viðhlítandi hætti. Sem dæmi um slíkar breytingar má nefna eftirfarandi: Lagt er til að framlög til framhaldsskólastigsins lækki um 1.150 millj. kr. á tímabili áætlunarinnar með því að draga úr útgjaldavexti auk nokkurra leiðréttinga í tengslum við tímabundin framlög. Ég hef velt því fyrir mér á hverjum þessi niðurskurður eða samdráttur bitnar þegar þessi framlög til framhaldsskólastigsins eru lækkuð. Ætlum við að leggja niður einhverja skóla? Eru það efnisgjöldin? Hvernig ætlum við að fara að því að draga saman á framhaldsskólastiginu án þess að gera betur grein fyrir því á hverju það bitnar helst?

Hér er lagt til að útgjöld til annarra skólastiga og stjórnsýslu mennta- og menningarmála lækki um 465 millj. kr. á tímabilinu sem alfarið á að skýrast af leiðréttingum í tengslum við tímabundin framlög.

Lagt er til að framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa lækki um 1,5 milljarða kr. sem alfarið skýrist af því að dregið er úr útgjaldavexti. Þarna hef ég virkilegar áhyggjur, svo að ekki sé meira sagt, en meira um það síðar.

Ég er að lesa hérna beint upp úr nefndaráliti 4. minni hlutans. Hér er einnig talað um að gerð sé tillaga um lækkun sem nemi 3,7 milljörðum kr. sem alfarið á að skýrast af endurmati á vaxtagjöldum ríkissjóðs. Ég veit ekki hvaða gríðarlegu vaxtagjöld ríkissjóður hefur upp á að bjóða á þessu tímabili. Hann er nýbúinn að gefa út fjármálaáætlun. Við erum nýbúin að fá fyrri fjármálaáætlun, ég kalla það nýbúin þegar það var bara í lok mars, og í þessari endurbættu fjármálaáætlun er talað um lækkun sem nemur 3,7 milljörðum kr. sem alfarið á að skýrast af endurmati á vaxtagjöldum ríkissjóðs. Ég skal viðurkenna að ég er enginn doktor í hagfræði en þarna vefst mér tunga um tönn. Þetta vefst fyrir mér, mér er algjörlega ómögulegt að ná utan um þetta.

Það verður að gera kröfu um ítarlegri rökstuðning ef breyta á fjármálaáætlun um marga milljarða króna. Ekki dugar að vísa til þess að dregið verði úr útgjaldaaukningu. Á hverjum á sú aðhaldskrafa sérstaklega að bitna? Á að loka einhverjum menntaskóla til að mæta aðhaldskröfum á framhaldsskólastigi? Á að fækka heilsugæslustöðvum til að mæta aðhaldskröfunum í þeim málaflokk? Í þessu sambandi er áhugavert að meiri hluti velferðarnefndar telur að ekki þurfi að gera stefnumarkandi breytingar vegna þess að ekki þurfi að draga verulega úr t.d. starfsmannafjölda ríkisins. Ekkert kemur frekar fram um hvernig stofnanir ríkisins eigi að draga úr fyrirséðri útgjaldaaukningu og því er alls óljóst hvort sú fullyrðing haldi vatni. Þá er athyglisvert að endurmat á vaxtagjöldum ríkissjóðs leiði sem sagt í ljós að þau verði 3,7 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir í lok mars. Ef sú er raunin verður varla ályktað annað en að upprunaleg áætlun hafi byggst á úreltum forsendum um vaxtagjöld ríkissjóðs.

Hér tala ég um fögur fyrirheit um bætt skatteftirlit. Það er athyglisvert að í breyttri fjármálastefnu og fjármálaáætlun er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna herts skatteftirlits. Þetta er talið réttlætanlegt þar sem áætlað er, að sögn meiri hluta fjárlaganefndar, að það skili allt að 10 milljarða kr. viðbótartekjum í ríkissjóð á tímabili áætlunarinnar. Það hljómar of gott til að vera satt að aðeins þurfi að auka útgjöld í eftirliti með skattheimtu um nokkur hundruð milljónir króna til að auka skattheimtu um 10 milljarða. Hér er um að ræða mörg hundruð prósenta ávöxtun. Ef þessar fullyrðingar standast er veruleikinn einfaldlega sá að ríkið hefur hingað til sýnt af sér mikla vanrækslu í eftirliti með skattheimtu sem eðli málsins samkvæmt hefur rýrt tekjur ríkissjóðs svo um munar. Ef aðgerðirnar skila ekki því sem að er stefnt liggur beinast við að álykta sem svo að hér sé enn ein mislukkuð tilraun ríkisstjórnarinnar til að krafsa yfir áður gerð mistök sín við framlagningu fjármálaáætlunar.

Tölum aðeins um það, það er þekkt að við erum með þetta svarta hagkerfi þar sem talið er að allt að 80–100 milljarðar kr. komi aldrei í okkar sameiginlega sjóð vegna þess að um er að ræða hrein og klár skattsvik. En eins og alþjóð veit og hæstv. forseti og væntanlega allir hér er mitt hugðarefni og ástæða þess að Flokkur fólksins varð til hin brennandi hugsjón mín fyrir því að útrýma fátækt á Íslandi, sú brennandi hugsjón sem kviknar þegar ég heyri um tæplega 10% barnanna okkar sem líða mismikinn skort, eitthvað sem mér finnst í raun algjörlega óréttlætanlegt í þeirri velsæld sem við þó lifum. Velferðarmál eru að mati 4. minni hluta verulega undirfjármögnuð í þeirri fjármálaáætlun sem lögð var fram, ekki bara sú fyrri, í vor, heldur og nú. Aðgerðir til að fjármagna t.d. afnám krónu á móti krónu skerðingar voru undirfjármagnaðar í fjárlögum ársins 2019 og nú hefur komið í ljós að ekki stendur til að afnema nema 35 aura af þeirri skerðingu. Fjármálaáætlunin byggist á fækkun í nýgengi örorku. 4. minni hluti telur algjörlega óásættanlegt að fjallað sé um þennan viðkvæma hóp sem öryrkjar eru sem vanda í samfélaginu í stað þess að viðurkenna þann mannauð sem hann hefur að geyma. Það liggur í hlutarins eðli að það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að koma til móts við þarfir öryrkja og gera allt til þess að virkja þá og efla til aukinnar samfélagsþátttöku.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það er búið að sitja fast í mér síðan í morgun, þegar ég hlýddi á hæstv. fjármálaráðherra í andsvörum við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, þegar hæstv. fjármálaráðherra talaði um óeðlilega fjölgun öryrkja. Það skar mig í hjartastað. Hvað er óeðlileg fjölgun öryrkja? Hvað er óeðlileg fjölgun öryrkja undir stjórn ríkisstjórnar sem hreinlega er að framkalla og framleiða öryrkja? Kerfið sem við búum við í dag er þvílíkt skerðingar- og haftakerfi gagnvart því að koma öryrkjum sem geta til sjálfsbjargar að ekki væri hægt að finna neitt því um líkt þótt leitað væri logandi ljósi úti um alla jarðarkima. Það er í raun með ólíkindum í ljósi þess að það er verið að tala um hversu gríðarlegir fjármunir fara í málaflokkinn að við skulum þá ekki stíga út fyrir rammann, það er margbúið að benda á það, og gefa öryrkjum ákveðinn aðlögunartíma í að fara út að vinna án skerðingar. Hvaða ófaglærður öryrki eða faglærður eða hver sem er er öryrki ef hann er vinnufær? Enginn, ekki neinn. Eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, minn ágæti samflokksfélagi og varaformaður Flokks fólksins og þingflokksformaður hans, sagði á dögunum þegar hann var spurður að því í Kastljóssþætti hvort það væri ekki staðreyndin að það væri fullt af fólki úti sem væri að svindla sér inn á kerfi örorkunnar, svindla sér inn á þetta kerfi með 212.000 kr. á mánuði. Svarið var gott, óneitanlega var það gott. Hann sagði einfaldlega sem svo að ef einhver væri það illa staddur og illa settur að hann hefði þörf fyrir að svindla sér inn á slíkt kerfi ætti hann svo sannarlega heima þar. Ég hef gjarnan bent á það sem var gert í Svíþjóð á sínum tíma. Þar var gerð ákveðin tilraun þar sem öryrkjar voru hvattir til að fara út að vinna án skerðinga í ákveðinn tíma. Við skulum gefa okkur 24 mánuði, 30 mánuði. Staðreyndin er sú að þeir fá hvort sem er greiðslur úr almannatryggingum. Þeim er haldið í fátækt. Þetta væri einn möguleiki til þess kannski að aðstoða þá við að hífa sig upp úr henni. Flestir þeirra gætu unnið einhver hlutastörf en því miður er staðan sú hér í okkar samfélagi í dag að þau störf eru ekki til staðar. Það er mjög erfitt fyrir þennan þjóðfélagshóp að fá hlutastörf, því miður, en við getum gert betur. Ég trúi því að það sem við horfum upp á hér og nú í ríkisbúskapnum, oft og tíðum, sé að það er einfaldlega verið að spara aurinn og fleygja krónunni. Það er verið að hanga of fast, eins og hundur á roði, í einhverju kerfi sem virðist vera mjög erfitt að stíga út úr. Það er skipuð nefnd eftir nefnd og ráð eftir ráð og hópur eftir hóp til að reyna að búa til eitthvert kerfi utan um þann þjóðfélagshóp sem öryrkjar eru, t.d. starfsgetumat. Ástæðan fyrir því að ekki á að afnema krónu á móti krónu skerðingu er sú að ekki á að gera það fyrr en búið verður að koma á starfsgetumati, ef það verður þá einhvern tímann gert, það fæ ég ekki séð.

Hvað um það, ég gat ekki stillt mig um þetta þegar ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra tala um óeðlilega fjölgun öryrkja þegar staðreyndin er sú að það er einmitt í umboði ríkisstjórnar hverju sinni sem öryrkjum fjölgar. Það er ekki flóknara en það. Við sjáum ekki hvernig við gætum mögulega breytt hlutunum og snúið blaðinu við. En það er hægt, ég er sannfærð um það og ég veit það, ég er búin að sjá hvernig það gekk fyrir sig í Svíþjóð. Það gekk það vel fyrir sig í Svíþjóð að 32% allra öryrkja sem fengu þá aðlögun að fara út að vinna og reyna að bjarga sér sjálfir fóru ekki aftur inn á bótakerfið. Þetta er ein leið í því að fækka öryrkjum eins og svo gjarnan hefur verið kallað eftir. Hvernig eigum við að fækka þeim? Þetta er ein leið til að gera það án þess að þurfa að hrinda þeim fyrir björg, þ.e. að hjálpa þeim til sjálfshjálpar. Þeir munu borga skatta af því litla sem þeir munu vinna sér inn í sínum hlutastörfum. Þetta mun ekki verða gríðarlegt áfall þennan stutta tíma fyrir ríkissjóð heldur mikill ávinningur til lengri tíma litið.

Það kemur í engu fram í fjármálaáætlun hvernig á að fækka öryrkjum. Stjórnvöldum ber að tryggja nægt fjármagn til nauðsynlegrar framfærslu allra þegnanna, ekki bara sumra, ellegar er hætta á því að gripið verði til örþrifaráða þegar áætluð útgjöld duga ekki til og strangari kröfur verði gerðar, t.d. við örorkumat, til að fækka nýgengi eða jafnvel að greiðslur almannatrygginga muni lækka. Það væri eiginlega það svartasta af öllu svörtu ef sú staða kæmi einhvern tímann upp þannig að ég ætla ekki að fara þangað. Þetta eru vangavelturnar þegar maður er að hugsa um hvað getur gerst ef öryrkjum heldur áfram að fjölga, alltaf er verið að tala um það og hvað það verði gríðarlega mikil byrði á ríkissjóði vegna þess að við öryrkjar höfum gjarnan verið kölluð á excel-skjalinu örorkubyrði. Ég man ekki eftir því að hafa lesið eitt einasta plagg á einni einustu opinberri stofnun og alls ekki á hinu háa Alþingi þar sem talað er um okkur öryrkja sem vannýttan mannauð sem hægt er að virkja til dáða.

Þá er ekki fyrirhugað að auka fjármagn svo að hækka megi elli- og örorkulífeyri til samræmis við raunverulega launaþróun í landinu eins og lögboðið er. Eins og Öryrkjabandalag Íslands bendir á í umsögn sinni um fjármálaáætlun hefur átt sér stað kjaragliðnun milli launaþróunar á almennum vinnumarkaði og kjara lífeyrisþega, gliðnun sem nemur um 54% frá árinu 1998 og 29% frá árinu 2007, sem sagt frá því um hrun. Öryrkjar eru einn af þeim hópum, almannatryggingaþegar og sérstaklega öryrkjar, sem ekki hafa fengið neina leiðréttingu frá hruni, enga leiðréttingu, ekkert afturvirkt, ekkert eins og við á hinu háa Alþingi og flestallar starfsstéttir úti í samfélaginu. Nei.

Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa alltaf verið of lágar og í engu tryggt framfærslu þeirra sem þurfa að reiða sig á kerfið. Ljóst er að stjórnvöld hyggjast halda uppteknum hætti og sniðganga lögvarinn rétt lífeyrisþega til leiðréttingar á framfærslu sinni. Greiðslur almannatrygginga eiga að hækka árlega í samræmi við launaþróun samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, en stjórnvöld hafa ítrekað hunsað ákvæðið á kostnað lífeyrisþega.

Þrátt fyrir að niðurskurður til velferðarmála sé ekki eins mikill nú og áður var boðað á engu að síður að skera niður í málaflokknum svo að um munar, málaflokki sem hefur verið undirfjármagnaður áratugum saman, ef ekki bara alltaf. Fjárframlög til málefna öryrkja og fatlaðs fólks eiga sem sagt að skerðast, frá því sem áætlað var í fyrri fjármálaáætlun sem leit dagsins ljós í mars, um 4,5 milljarða kr. á gildistíma áætlunarinnar.

Ég verð að segja að ég gleðst mjög yfir því að sjá samt þessa tölu af öllum tölum vegna þess að áður var þessi tala 8 milljarðar kr. Henni var breytt í meðförum hv. fjárlaganefndar og útkoman er þessi.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að ráðist verði í endurmat á gæðum og eftirliti með öllum tilfærslukerfum ríkisins. Það verkefni á, að sögn meiri hluta fjárlaganefndar, að standa undir 1,3 milljarða kr. lækkun til málefnasviðsins. Þá eiga niðurstöður verkefnisins um endurmat útgjalda að skila lækkun um frekari 1,1 milljarð kr. Slík áform byggjast á voninni einni saman og ekkert áþreifanlegt bendir til að slík úttekt geti skilað svo umfangsmiklum sparnaði. Þá á að lækka framlög um 2 milljarða kr. með vísan í aukið aðhald án þess að nánar sé tilgreint hvernig eigi að ná því fram.

Virðulegi forseti. Ég skil þetta ekki en er samt að tína þetta hér fram. Fjárframlög til sjúkrahúsþjónustu á að lækka um 2 milljarða kr. Í skýringunum er talað um þarna sé verið að draga úr framkvæmdum við byggingu nýs sjúkrahúss, ef ég skil þetta rétt, þannig að þetta eigi að hliðrast til. Eins og segir hér skýrir meiri hluti fjárlaganefndar þessa lækkun á þann hátt að fjármunir eyrnamerktir byggingu nýs Landspítala hliðrist til ársins 2025 og falli þá utan áætlunar. Það er svolítið merkilegt. Þegar fjárframlög eru lækkuð er engin trygging að vísa í það að fjármálaáætlanir komandi ára muni bæta upp þá lækkun, fjárframlög til heilbrigðisþjónustu. Ég er að segja að það er svolítið athyglisvert að sjá að við skulum vera að vísa hér inn allt til ársins 2025. Við erum bara með áætlun sem gildir til ársins 2024 þannig að það er verið að senda boltann eitthvað allt annað. Enginn getur gengið út frá því sem vísu að sitja á hinu háa Alþingi sem hér er nú. Það getur enginn stólað á að sitja hér árið 2025 þannig að ég átta mig ekki heldur á þessu. Mér finnst þetta ekki góður bragur.

Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á að skerða um 1,5 milljarða kr. frá fyrri fjármálaáætlun í mars. Það er búið að vera að reyna að bæta í. Það er verið að bæta í og bæta í því að vandinn er gríðarlegur og uppsafnaður í samfélaginu frá hruni og það er nánast sama hvert litið er. Það er engin ástæða til þess að skammast út í það sem vel er gert og þann góða vilja sem oft hefur verið sýndur en hvort það er raunhæft sem gert er er svo önnur saga. Ég hef oft sagt að bjartsýni og bros bjargi deginum en fjármálaáætlunin frá því í vor og jafnvel þessi bjargar ekkert deginum því að mér finnst hún eiginlega of bjartsýn og jafnvel of brosandi ef maður skyldi bara að segja það eins og er.

Það sem við erum að tala um þegar við erum að tala um heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa erum við að tala um það sem við höfum verið að sjá í fréttum og úti um allt. Við erum að tala um hvernig landsbyggðarfólki í smáþorpum úti á landi er hreinlega mismunað í heilbrigðisþjónustu vegna búsetu. Það er meira að segja verið að taka af fólki sjúkrabílana, eins og t.d. í Ólafsfirði. Í stað þess að vera með sjúkrabíl í Ólafsfirði og á Siglufirði hvorn sínum megin við göngin var bíllinn tekinn af Ólafsfirðingum og færður til Siglufjarðar þannig að nú eru Siglfirðingar með tvo bíla þar en engan í Ólafsfirði. Það er bara upp á náð og miskunn hversu snöggur bílstjórinn er að keyra til Ólafsfjarðar og sækja sjúklinginn, ef hann er þá ekki löngu dauður áður en bíllinn mætir á staðinn, og koma honum undir læknishendur.

Virðulegi forseti. Það er eiginlega ótrúlegt að maður skuli tala um þetta og ég talaði um það um daginn líka hvernig ástandið var fyrir austan, uppi á Héraði, þegar einstaklingur slasaðist og þurfti að loka risasári, þá var í raun ekki neitt til staðar. Það var engin deyfing. Enginn komst í búnað, ekki í nál og ekki þráð. Það var bara einhver saumnál og spotti og viðkomandi var fylltur af koníaki. Einhverjum hefði kannski þótt það gaman á öldum áður en þetta hefði getað gerst fyrir nokkur hundruð árum en ég hefði ekki trúað því að við þyrftum að viðurkenna það í dag að svona staða gæti komið upp í samfélaginu. Það er hreinlega með ólíkindum.

Fjárframlög til lyfja- og lækningavara á líka að draga saman frá áður áætluðum fjárframlögum um 1,5 milljarða með vísan í aukna skilvirkni. Ég veit ekki hvað þetta þýðir heldur. Við getum gert ýmislegt í því að vera ekki alltaf að spara aurinn og fleygja krónunni. Við getum hagrætt gríðarlega.Til dæmis í innkaupum — ég veit að það er verið að reyna og er búið að semja um jafnvel hagræðingu í innkaupum á lyfjum og öðru slíku, kaupa þau með vinum okkar í Danmörku og svona en ég botna ekki í því hvernig hægt er að taka niður þessa málaflokka, hvernig hægt er að ganga inn á þessa málaflokka, mögulega frá því sem áður var áætlað, í ljósi þess að þeir eru meira og minna í lamasessi. Það eru rosalega mörg verkefni fyrirliggjandi og því miður kosta þau peninga. Auðvitað snýst þetta alltaf um forgangsröðun og auðvitað getum við ekki bara hnoðað í nokkur hundruð milljarða, bakað þá og látið þá detta hér niður. Það væri afskaplega ánægjulegt ef slíkt væri hægt en auðvitað er það ekki hægt. Auðvitað verður maður að reyna að vera raunsær en það breytir ekki þeirri staðreynd að ég hef talað um það frá því að ég kom á hið háa Alþingi að mér þykir forgangsröðun fjármuna ekki vera sérstaklega beint til þeirra sem virkilega þurfa á fjármunum að halda.

Það á að fresta aðgerðum um eitt ár til að fjölga hjúkrunarrýmum. Hugsið ykkur, þar er staðan svoleiðis að jafnvel þó að byggt hafi verið nýtt hjúkrunarrými eins og t.d. á Seltjarnarnesi, með 30 legurýmum, er ekki enn búið að manna stöðurnar á hinu glæsilega nýja hjúkrunarrými. Einungis eru komnir 20 vistmenn þangað inn. Það eru tíu rými sem ekki hefur verið hægt að nýta vegna þess að það var ekki til starfsfólk. Og hvers vegna? Við fengum inn í fjárlaganefnd góða gesti sem tjáðu okkur að þau teldu að hagkvæmninni í því hvernig væri verið að byggja hjúkrunarheimilin og taka utan um þennan málaflokk væri á margan hátt ábótavant. Það væri ekki nógu skilvirkt og það væri verið að byggja of litlar einingar í stað þess að byggja við þær sem fyrir eru, þar sem starfsfólk er fyrir. Við vitum að það er mannekla í heilbrigðiskerfinu. Þar eru engin ný vísindi.

Staða öldrunarþjónustu er um þessar mundir óboðleg, það er ekki flóknara en það, og vegna skorts á hjúkrunarrýmum, manneklu og skipulagsleysis bíður nú fjöldi fólks eftir þjónustu. Fólk er vistað á Landspítalanum vegna þess að ekki tekst að koma því í hjúkrunarrými með viðhlítandi þjónustu. Hugsið ykkur. Það eru tugir einstaklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þessi svokallaði fráflæðisvandi er dýrasta úrræði í heimi. Dagurinn kostar vel á annað hundrað þúsund krónur. Hvers lags óráðsía með almannafé er þetta? Við fengum líka að heyra um daginn í fjárlaganefnd að einn dagur á Landspítala – háskólasjúkrahúsi kostaði jafn mikið og 25 heimsóknir hjúkrunarfræðings til aldraðs einstaklings í sjálfstæðri búsetu. Samhliða er þó ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum sem samsvarar fjölgun hjúkrunarrýma. Þá hefur ekki verið gerður rammasamningur um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila og því ríkir mikil óvissa um rekstrarhorfur slíkra stofnana. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa lýst yfir áhyggjum vegna áhugaleysis stjórnvalda á gerð rammasamnings og einnig vegna þess hve lítið áætluð fjárframlög í rekstur og tilfærslur vegna hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu eigi að hækka. Í því sambandi benda þau á að samkvæmt fjárlögum áranna 2018 og 2019 og fyrirhugaðri fjármálaáætlun eigi framlög til sjúkrahúsþjónustu að aukast um 13,1% og fjárframlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa að aukast um 25,8% en fjárframlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu aðeins um 9,1%.

Þarna er ég að benda á að þó að 9,1% — þau hefðu gjarnan viljað sjá 25,8%, sjá hærri tölu þarna. Samt sem áður er verið að gefa í. Við getum ekki alls staðar gert allt en þarna áttum við alls staðar að gefa í. Þarna er það sem við eigum að forgangsraða fjármunum. Við eigum að gefa í það mikið að það sé enginn skortur, það sé engin vöntun, það sé ekki mannekla, það sé rými fyrir alla og allir eiga að fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar. En það er víst ekki óþekkt að frjálslega sé farið með þá grein í með meðförum hins háa Alþingis. Ófáir dómar hafa fallið sem sýna það.

Þá hafa umsagnir borist sem gefa til kynna að það fjármagn sem býðst nú til reksturs hjúkrunarrýma af hálfu ríkissjóðs í formi daggjalda dugi ekki til að mæta þeim auknu kröfum sem gerðar eru í rekstri af hálfu hins opinbera, m.a. um aukna persónuvernd. Auk þess hefur kostnaður við hjúkrun hækkað mikið undanfarin ár sökum þess að þeir einstaklingar sem koma inn á hjúkrunarheimili eru sífellt veikari. Því þarf að gera ráð fyrir því að sá kostnaður aukist einnig á tíma fjármálaáætlunar.

Fjármálaáætlun tryggir ekki áframhaldandi rekstur velferðarkerfisins nema gripið verði til aðhalds í rekstri ríkisstofnana. Slíkt aðhald mun eðlilega bitna á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda ef ekki er vandað til verka. Aðhaldskröfur fjármálaáætlunar kunna m.a. að leiða til fækkunar starfsfólks sem sinnir velferðarþjónustu fyrir hönd ríkisins. Slík fækkun væri óverjanleg þar sem fyrir liggur nú þegar að heilbrigðiskerfið býr við manneklu.

Forgangsröðun fjármuna – fólkið fyrst. Þegar fyrirséð er versnandi afkoma ríkissjóðs ber stjórnvöldum að standa sérstakan vörð um þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Framlög til velferðarmála á ekki að skerða nema í ýtrustu neyð. Sú neyð er ekki til staðar nú og því óverjandi að draga úr stuðningi í velferðarmálum í breyttri fjármálaáætlun eins og gert er. Leita á allra leiða til að auka tekjur ríkissjóðs áður en til slíkra aðgerða kemur. Það er á samdráttartímum sem áherslur ríkisstjórna koma helst í ljós. Þannig sést hvernig stjórnvöld vilja forgangsraða fjármunum og í þágu hverra. Til að mynda er ríkisstjórninni í lófa lagið að styrkja stöðu ríkissjóðs með því að taka auknar rentur af aðgangi í sameiginlega sjávarauðlind þjóðarinnar í stað þess að lækka veiðigjöld um 4,3 milljarða kr. á árinu 2019. Einnig í stað þess að fresta lækkun á hinum svonefnda bankaskatti um eitt ár, eins og fram kemur í áætluninni, er rík ástæða til að fresta þeirri lækkun út tímabilið og um leið tryggja hátt í 38 milljarða kr. tekjur í ríkissjóð. Hafa bankarnir ekki efni á því að greiða þennan skatt? Er betra að láta það bitna á velferð og fátæku fólki? Flokkur fólksins segir nei.

Í stað þess að forgangsraða skattheimtu þannig að þeir greiði sem minnst um munar leggur ríkisstjórnin til að lagðir verði grænir skattar á urðun sorps sem að miklu leyti greiðast úr vasa heimilanna.

Boðaðar eru arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins um a.m.k. 110 milljarða kr. á tímabilinu. Það er mjög ánægjulegt vegna þess að á árunum 2010–2016 var meðalarðgreiðsla Landsvirkjunar í ríkissjóð um 1,5 milljarðar kr. en 2017 kom forstjóri Landsvirkjunar opinberlega fram, ég las þá grein í Viðskiptablaðinu, og boðaði að á árunum 2020–2026 mættum við eiga von á allt að 110 milljarða kr. arðgreiðslum úr Landsvirkjun. Ríkisstjórnin ætlar ekki að nýta þessar arðgreiðslur til að mæta áföllum í ríkisrekstrinum, heldur er markmið hennar þvert á móti að arðurinn renni í svonefndan Þjóðarsjóð sem verði sjálfstæður fjárfestingarsjóður og hýstur erlendis.

Við höfum alveg tíma til að stofna þennan Þjóðarsjóð aðeins síðar, ekki satt? Liggur svo lífið á að við þurfum að marka tíma stofnunarinnar akkúrat núna þegar við erum í þessari niðursveiflu? Getum við ekki bara tekið utan um þetta og geymt það, lagt bara til hliðar og nýtt það sem við sannarlega eigum? Er ekki Landsvirkjun okkar sameiginlega eign?

Við í Flokki fólksins höfum ýmsar tillögur að breytingum. Við getum ekki boðað skerðingar á meðan ríkissjóður safnar í sarpinn. Það á að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar til að koma í veg fyrir skerðingar í velferðarmálum svo að ekki verði gengið á hlut þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Því leggur 4. minni hluti til eftirfarandi breytingar á tilteknum málasviðum, að framlög til öryrkja og málefna fatlaðs fólks verði aukin um 7 milljarða kr. árlega út tímabilið, framlög til sjúkrahúsþjónustu verði aukin um 1 milljarð árlega. Ég ætla að hoppa aftur í framlögin til öryrkja. Við erum að tala um að á þessu tímabili þurfum við að afnema krónu á móti krónu skerðinguna alveg. Við þurfum að draga þennan þjóðfélagshóp út í lífið, gera þau virk í samfélaginu, hjálpa þeim til sjálfshjálpar, draga þau út úr fátæktargildrunni því að ef við náum því markmiði að koma þeim út úr fátæktargildrunni um tíma vilja þau aldrei fara þangað aftur. Það er okkar hagur, samfélagsins alls, að ná í þann mannauð sem öryrkjar eru. Með þessu fjármagni komum við líka til móts við þá sem geta ekki unnið, sem eru einir heima, sem eru án allra réttinda nema bara berstrípuðum greiðslum frá almannatryggingum. Eftir skatta eru það rétt rúmar 212.000 kr. Ég spyr: Hver treystir sér til að lifa á rúmlega 212.000 kr. á mánuði? Ætli það væri einhver einasti? Ég stend hér ein náttúrlega með hæstv. forseta og hv. formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, þannig að ég veit ekkert hvort þingmenn muni kinka kolli allt í kring og segja: Jú, ég treysti mér alveg til að lifa af 212.000 kr. á mánuði, jafnvel þótt ég sé að borga húsaleigu upp á 250.000 kall eða 150.000 kr. eða eitthvað af því að ég lifi bara á vatni og lofti, ég þarf ekkert rafmagn og ég þarf engan síma og ég þarf engan bíl og ég þarf aldrei eldsneyti. Ég þarf ekki neitt. 212.000 er fínt fyrir mig. En það er ekki fínt fyrir neinn. 212.000 er ekki fínt fyrir neinn, það er allt of lítið fyrir alla. Það er ekki flóknara en það. Það er í okkar valdi hér og okkar skylda að koma í veg fyrir að fólkið okkar búi við sárafátækt.

Flokkur fólksins vill líka auka framlög í sjúkrahúsþjónustu um 1 milljarð kr. á ári. Hvers vegna? Ég er búin að tala um það áður. Það er fráflæðisvandi, það er mannekla, það eru svo gríðarlega mörg og stór verkefni að ég vildi óska þess að ég hefði getað haft þessa tölu miklu hærri. En ef maður er að boða einhverjar breytingar og ætlar að kalla á það að forgangsraða fjármunum verður maður náttúrlega að taka þá einhvers staðar annars staðar. Þeir detta ekki niður úr loftinu eins og ég vísaði áður til.

Framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa verði aukin um 1 milljarð kr. árlega. Að sjálfsögðu vill Flokkur fólksins að það séu til sjúkrabílar og fyrsta hjálp úti um allt, að fólkið þurfi ekki að bíða eins og austur á Héraði í allt að klukkustund áður en nokkur kom sem sendur var frá Egilsstöðum. Hugsið ykkur, við búum á Íslandi og vitum hvaða veðra og vinda er von á veturna, hvernig ófærðin er. Ég er frá Ólafsfirði. Stundum var ófært á láði og legi allt að tíu daga. Sú er ekki lengur tíðin að vísu en samt verður ófært. Það eru oft flóð, snjóflóð og alls konar og það er ófært. Hvað gerum við þá þegar enginn er til staðar í litla þorpinu, litla kaupstaðnum, litla bænum úti á landi og eitthvað kemur upp á, einhver veikist, einhver slasast eða kona er í barnsnauð? Ekki neitt. Það gerist ekki neitt.

Framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu verði aukin um 2 milljarða kr. árlega. Hvers vegna? Vitum við, hv. þingmenn, um vaxandi biðlista barna eftir greiningu? Að hugsa sér að barn skuli þurfa að bíða í allt að tvö ár eftir að fá greiningu um það hvort það er lesblint, með ADHD, með dyslexíu, hvar það er statt. Barn sem er að koma í skóla skilur ekkert í því af hverju það getur ekki lært og lesið eins og allir hinir í kringum það. Þetta er á okkar ábyrgð, það er ekki flóknara en það.

Við viljum auka framlög til málefna aldraðra. Við viljum líka standa við það sem sett var inn í lífskjarasamninginn og varð ekki síst til þess að hann varð að raunveruleika í vor í kjarabaráttunni. Við viljum setja 2,5 milljarða kr. árlega í húsnæðismálin. Það er verið að tala um samdrátt upp á 13% á milli þess sem boðað var í fjármálaáætlun í vor og svo aftur í dag en ég held að það sé ekki alveg eins svarthvítt og mér sýndist það vera. Það breytir ekki þeirri staðreynd að betur má ef duga skal. Við viljum ekki að börnin okkar séu búin að flytja 20 sinnum áður en þau verða 12 ára eða tíu sinnum.

Grundvöllur allrar velferðar og félagslegs öryggis er heimilið, það er festa, skólinn og vinirnir. Svo erum við hissa á því að unga fólkið okkar sé ráðvillt, flosni upp úr skóla, lendi út af brautinni, verði fíklar — vegna þess að við neitum að horfast í augu við að allt of mörg þeirra eru kvíðin, þeim líður illa, þau eiga bágt í skólanum og hafa ekki einu sinni fundið sig, finna sig í raun aldrei. Þetta er okkar ábyrgð, virðulegi forseti.

Þær breytingar sem ég er að boða hér myndu auka útgjöld ríkissjóðs um 15 milljarða kr. á ári að meðaltali á tímabilinu. Þær mætti fjármagna að fullu með því, eins og ég áður nefndi, að fresta lækkun bankaskatts á tímabilinu, með því að halda veiðigjaldinu, breyta því aftur eins og það var áður en kom til þess að lækka það og með því að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar. Við þurfum ekki að gera meira, bara þetta er miklu meira en það sem verið er að biðja um til að efla og styrkja þessa málaflokka.

Nánari útfærsla á tillögum 4. minni hluta um breytingar á fjármálaáætlun má sjá í sérstöku þingskjali sem fylgir með þessu nefndaráliti. Það er það dapurlegasta af öllu dapurlegu að sjá þess hvergi nokkurs staðar stað að lægstu framfærsluna eigi að hækka í allri þessari áætlun, svo langt sem hún nær, í heil fimm ár. Hvergi er gert ráð fyrir því að framfærsla þeirra sem verst eru staddir muni hækka. Hún er látin fylgja lögboðinni leiðréttingu sem fer fram í janúar ár hvert og í stað þess, eins og áður segir, að hún sé látin fylgja launaþróun í landinu eins og kveður á um í 69. gr. almannatryggingalaga hefur þessi leiðrétting einungis verið samkvæmt neysluvísitölu. Munurinn er gríðarlegur, virðulegi forseti.

Ég þakka fyrir mig. Ég tala kannski pínulítið um fjármálastefnuna á eftir en þetta er gott í bili.