149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil svo sannarlega hvað hv. þingmaður á við. Auðvitað breytist ýmislegt. Af öldruðum var afnumin króna á móti krónu skerðing sem tók gildi 1. janúar 2017. Eftir sitja öryrkjar einir í öllum heiminum með slíka skerðingu sem er alveg með ólíkindum og eflaust á eftir að láta á það reyna einhvers staðar fyrir einhverjum æðri dómstólum. Við útkljáum það ekki hér og nú. Við verðum samt að grípa í taumana og mér finnst ánægjulegt að heyra hv. þingmaður segja að þótt það kosti verðum við að gera eitthvað, við verðum að breyta og taka samtalið. Við getum samt ekki sleppt því að tala nákvæmlega um þetta þegar við erum að tala um fjármálaáætlun. Við erum með ríkisbúskapinn undir eins og hann leggur sig og sjáum hvernig á að forgangsraða fjármunum hvað hann varðar á næstu árum.

Það hefur stungið mig langverst að sjá hversu lítið er gert fyrir þessa hópa. Framfærslan er ekki aukin um eina einustu krónu sem er alveg með hreinum og klárum ólíkindum. Ég veit og trúi að við getum gert betur. Það er ekki nóg að við tölum um það og að við séum öll sammála um að enginn geti lifað af þessu og annað slíkt. Það er í okkar valdi að breyta því. Þannig sé ég það og engan veginn öðruvísi.