149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við ræðum núna mikilvæga fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta eru tvö aðskilin mál eins og við þekkjum en við ræðum þau, m.a. út af þinglokafyrirkomulagi, núna saman í dag. Við upphafið finnst mér það hins vegar vont. Það hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. forsætisráðherra, að fjármálaáætlun en sérstaklega fjármálastefna hverrar ríkisstjórnar sé algjört grundvallarplagg. Mér finnst sérstaklega miður að við fáum ekki meiri tíma en raun ber vitni og vil gagnrýna harkalega það málþóf sem Miðflokkurinn hefur viðhaft í orkupakkamálinu sem er algjörlega fullupplýst og ég tel að þingið eigi að fá að taka það mál til afgreiðslu sem allra fyrst.

Hvaða afleiðingar hefur það málþóf haft? Það hefur haft þær afleiðingar að við fáum takmarkaðan tíma í að ræða eitt af grundvallarmálum hverrar ríkisstjórnar. Reyndar koma grundvallarmálin alltaf upp aftur og aftur af því að það þarf að endurskoða óraunhæf viðmið o.s.frv. Ég kem að því síðar. Ég vara við því og beini því til m.a. formanns fjárlaganefndar að hann beiti sér fyrir því í framtíðinni, ég vona að við verðum ekki sífellt í endurskoðun á fjármálastefnunni en það má búast við því eins og hún er útbúin núna að þetta verði ekki gert á lokametrunum. Það eru svo mikilvæg mál sem tengjast fjármálastefnunni sem og -áætluninni sem tengjast lífskjörum okkar. Þau tengjast uppbyggingu á samfélaginu. Þau tengjast því hvernig m.a. var talað um aldraða og öryrkja hér áðan, hvernig við viljum búa að þeim, hvernig við viljum halda ríkisútgjöldum líka ábyrgum og þannig að þau skili sér þangað sem þau eiga heima. Við fáum ekki tíma í nákvæmlega þessa þætti af því að hér hefur verið algjört rugl í gangi að mínu mati af hálfu Miðflokksins og það sem verra er er náttúrlega hin algjöra eftirgjöf af hálfu ríkisstjórnarflokkanna gagnvart Miðflokknum. Svigrúm þess flokks hefur orðið meira en nokkur efni standa til í störfum þingsins þannig að það sé sagt strax í upphafi.

Við erum bara með þennan litla ramma, þennan litla glugga hér í dag, búin nokkurn veginn að ná samkomulagi um að það séu tveir ræðumenn frá hverjum flokki og svo er misjafnt hvað menn munu ræða lengi. Þá velti ég fyrir mér — og ég vil draga það fram að sérstaklega formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, hefur verið hér eins og hann er iðulega, eiginlega fyrirmyndarþingmaður meiri hlutans í því hvernig hann sinnir sínu starfi, svarar spurningum og kemur með ábendingar, stundum harðar en iðulega málefnalegar — hvort sé síðan á endanum aldrei ætlunin að hlusta á ábendingar eða málefnalega gagnrýni okkar í minni hlutanum. Við sjáum einfaldlega hvernig málin voru afgreidd út úr fjárlaganefnd og auðvitað getur fjárlaganefnd og þingmeirihlutinn líka þakkað Miðflokknum fyrir málþófið, þetta margra daga málþóf, því að það er augljóst að gögnin fyrir fjármálaáætlunina voru ekki tilbúin. Þau voru bara ekki tilbúin þannig að (Gripið fram í.) það var einn parturinn af því að sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn var ekkert að flýta sér að semja við Miðflokkinn og skildi forsætisráðherra eftir í þeirri súpu með skringilegum áherslum og niðurstöðum, alla vega um tíma. Það er þó önnur saga og ég vil beina því inn í framtíðina að við höfum ekki þennan háttinn á. Þá er hætta á að þetta verði leikrit upp að einhverju marki. Ég tel að við t.d. í Viðreisn höfum komið með mjög málefnalega gagnrýni á fjármálastefnuna, komið með okkar tillögur, haldið fund og sagt ítarlega frá því hvernig við viljum brúa bilið, í fyrsta lagi, í öðru lagi hvernig við viljum koma í veg fyrir að niðursveiflan sem núna er í rauninni byrjuð verði sem minnst og hafi sem minnst áhrif á heimili landsins — og síðan hvernig við fjármögnum það allt saman.

Áætlunin sem við ræðum hér hefur tekið nokkrum breytingum frá fyrri umr., enda hafa efnahagsforsendur breyst töluvert með tilkomu endurskoðaðrar fjármálastefnu. Í fyrri umr. í tengslum við þetta grundvallarplagg ríkisstjórnarinnar var hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega varaður við mögulegu tekjutapi ríkissjóðs og kostnaði vegna efnahagslegra áfalla eins og aflabrests í sjávarútvegi. Það var varað við því. Vegna samdráttar í ferðaþjónustunni sem blasti við öllum sem voru með augun opin, verðfalls á útflutningsmörkuðum eða efnahagslegra áfalla í helstu viðskiptalöndum. Það er gott að í millitíðinni virðast menn vera að raunveruleikatengja, m.a. við Brexit, en það eitt og sér, hvernig það mál fer, hvort Boris Johnson nær að uppfylla blautan draum sinn og Nigels Farages um að fara í hart Brexit og skilja Breta eftir samningslausa hefur ekki síður áhrif á íslenska hagsmuni. Það er bara þannig.

Þróun gengis, verðlags og kjarasamninga — það var ljóst að hún myndi einnig valda óvissu fyrir afkomu ríkissjóðs en að sjálfsögðu voru þessar viðvaranir allar vel ígrundaðar, ekki eingöngu af hálfu okkar Viðreisnar og annarra stjórnmálaflokka á þingi heldur ýmissa sérfræðinga innan atvinnulífsins eða hjá vinnumarkaðnum og fleira. Þess vegna hefur ríkisstjórnin núna, aðeins þremur mánuðum síðar, neyðst til að endurskoða þær forsendur sem hún hafði gefið sér á sínum tíma og breytt fjármálastefna er því staðreynd.

Við þekkjum öll óraunhæfu útgjaldaloforðin sem þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn voru óhræddir við að veiða atkvæði út á fyrir síðustu kosningar, allt fyrir alla. Inneignin virtist óþrjótandi en það sem núna blasir við er að það þarf að draga seglin saman, a.m.k. um stund, en stjórnarliðar eiga erfitt með að kannast við að þetta sé til marks um frekar bagalega efnahagsstjórn, fjarri lagi, og það má vart ræða efnahagsástandið eins og það blasir við í dag. Við sjáum það bara á þeim forsendum sem eru gefnar í þessum málum en kannski er það vegna þess að ríkisstjórnin neyðist í leiðinni, ef hún ætti að horfast í augu við þennan raunveruleika, að taka pólitíska afstöðu til málaflokka og loforða sem þau eru mögulega á endanum alls ekki sammála um, heilbrigðismál. samgöngumál, hvaða leiðir, hvernig og hversu mikið. Það gæti skapað bresti í þessu annars trausta sambandi stjórnarflokkanna þar sem allt virðist vera rosalega gaman og það er fínt að fólk hafi gaman og gleði af starfinu. Þegar maður hugsar um þetta virðist vera að alla tíð hafi helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar verið að halda stjórninni saman. Það er alfa og omega allrar nálgunar hennar, sama í hvaða málaflokkum er borið niður. Þó að það tengist ekki beint fjármálastefnu og tengist ekki fjármálastefnu eða fjármálaáætlun sáum við bara í gær hvernig allt var gert þegar hér var atkvæðagreiðsla um mannanöfnin, allt var gert til þess að koma í veg fyrir að ýta undir einstaklingsfrelsi í reynd þannig að meira og minna allur Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Vinstri græn sópuðu þessu út af borðinu með dyggum stuðningi Miðflokksins. Þess vegna er þetta samkrull íhaldsarma ekki bara leiðinlegt og hvimleitt heldur er þetta stórhættulegt varðandi alla þróun hér í þinginu. Þannig blasir þetta við mér að og þess vegna segi ég að þetta sé svona alfa og omega allrar nálgunar ríkisstjórnarflokkanna, einfaldlega að halda ríkisstjórninni saman. Þá eru öll prinsipp gefin eftir eða hlutum einfaldlega ekki svarað, að mínu mati.

Virðulegur forseti. Þetta er fyrsta ríkisstjórnin sem setur fram fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlög, allt var byggt á sama hlutnum, algjörlega út kjörtímabilið. Síðan hefur babb komið í bátinn, eins og við sjáum, forsendurnar sem ríkisstjórnin lagði upp með og eiga að vera til þess að uppfylla þessi mikilfenglegu loforð sem hljóða upp á tugi milljarða af hálfu stjórnmálaflokka eins og Sjálfstæðisflokksins sem hefur talið sig vera ábyrgt stjórnmálaafl í fjármálum í gegnum tíðina, allt í einu var sá flokkur kominn í yfirboðsmennskuna í kosningaaðdragandanum og setti fram 100 milljarða í sín kosningaplögg og loforð, Vinstri græn með eitthvað í kringum 80 og Framsókn jafnvel bara minna, var kannski hóflegust af þeim stjórnarflokkum sem nú eru. Þrátt fyrir að stefnan sé ríflega ársgömul, fjármálaáætlunin sjálf bara þriggja mánaða gömul, er auðvitað bæði eðlilegt og sjálfsagt að endurskoða mistök og galla eins og núna á fjármálastefnunni en það er að mínu mati ekki endilega ýkja gott fordæmi til framtíðar að endurskoða, ekki síst þegar raunsæisradarinn hverju sinni og núna er áfram að mínu mati hunsaður og það nokkuð markvisst. Ríkisstjórnin heldur áfram að gera það sem hún gerði við fyrri stefnu og áætlanir, að vera ekki nægilega raunsæ í sínum skoðunum, rígheldur í hagspá Hagstofunnar, en það eru bara svo margir eins og síðast sem eru að benda á að þetta er ekki raunhæft. Það er það sem við í Viðreisn höfum verið að ítreka, að það þarf að hafa plaggið sem næst raunveruleikanum.

Áætlunin var í rauninni brostin áður en blekið þornaði á henni og þar með tekjuforsendur og gjaldaforsendur einnig. Við höfum margoft varað við því í þessum þingsal að hljóð og mynd í þessu máli hefur ekki farið saman hjá ríkisstjórninni. Við höfum kallað eftir meiri ábyrgð og því að við séum ekki að reisa hér skýjaborgir og óskhyggju, við byggjum frekar á staðreyndum og raunveruleikatengingu.

Gott og vel, hverjar eru svo staðreyndir þessarar fjármálaáætlunar? Það hefur verið farið ágætlega yfir það í dag. Útgjöld ríkissjóðs verða 13 milljörðum minni árin 2020–2024 en fyrri áætlun gerði ráð fyrir. Framlag til umhverfismála er lækkað miðað við það sem áður var. Skorið verður niður hjá framhaldsskólum miðað við fyrri áætlanir, heilsugæslum, hjúkrunarheimilum og í málefnum aldraðra. Þjóðarsjóðurinn er enn þá bara ágætishugmynd en hann er ekki orðinn að veruleika, enda var hann í rauninni tæmdur löngu áður en hann varð til. Fjárfestingum sem áttu að fara í nýsköpun eða byggingu hjúkrunarheimila hefur verið slegið á frest og við sjáum að það er sársaukafull lækkun til nýsköpunar miðað við fyrri plön, til nýsköpunar, menntunar og rannsókna. Þetta er bara bláköld staðreynd.

Við getum líka rætt enn frekari lækkun á fyrirætlunum í samgöngumálum þannig að það er eðlilegt að spyrja í því samhengi hvort fögur fyrirheit um fullfjármagnaða samgönguáætlun — munið þið þegar það var þrammað upp hérna með fullfjármagnaða samgönguáætlun? Er sú áætlun einfaldlega flogin út um gluggann? Við fáum litlar vísbendingar um það hver ætlunin er. Svörin um nánustu framtíð eru mjög óljós hvað þetta varðar. Við þessu höfum við í Viðreisn sérstaklega varað og þrátt fyrir að það sé auðvelt að vera í pólitík og lofa upp í ermina á sér er það einfaldlega dýrkeypt. Þessi óhóflega bjartsýni ríkisstjórnarinnar við gerð síðustu fjármálaáætlunar er núna svolítið að bíta hana í rassinn, eða skottið eða hvað við getum sagt hér.

Staðan var nokkuð fyrirsjáanleg og þá hefði maður haldið að menn hefðu lært af því sem menn sögðu fyrir örfáum misserum, að ríkisstjórnin hefði þá bara strax núna viljað vera raunsæismegin í lífinu og hlusta á ígrundaðar raddir sérfræðinga sem ég kem inn á á eftir, eins og t.d. Viðskiptaráðs, Samtaka iðnaðarins, greiningardeildar Arion banka og fleiri. Ríkisstjórnin er, og það er hægt að segja henni það til hróss, að reyna að feta sig inn á þennan stíg. Það verður náttúrlega að draga fram það sem vel er gert. Hún er að reyna að feta sig inn á það að koma til móts við og átta sig á þeirri niðursveiflu sem er að einhverju leyti hafin. Það er samt þannig að hún skilur plásturinn enn eftir á sárinu. Það er mín reynsla að það er betra að rífa plásturinn af en að standa í einhverju smátutli eins og er verið að gera hér. Ríkisstjórnin er enn og aftur að bíða og sjá og vona að þetta lagist meðan við sjáum í tillögum hennar að það er jafnvel verið að boða aðgerðir sem ýkja niðursveifluna. Það er eins og menn læri heldur ekkert af sögunni hvað það varðar og þess vegna vil ég koma hér á eftir inn á tillögur okkar í Viðreisn varðandi fjármálastefnuna og -áætlunina. Þess vegna langar mig líka í því samhengi að spyrja hvaða áhrif þetta hafi síðan á hina sögulegu lífskjarasamninga ríkisstjórnarinnar. ASÍ hefur nú þegar sent frá sér tilkynningu þar sem þau árétta að brestur á forsendum fjármálaáætlunarinnar fyrir 2020–2024 geti ekki réttlætt að stjórnvöld hverfi frá loforðum sem gefin voru við gerð kjarasamninga og þau saka stjórnvöld um að nota framfærsluöryggi öryrkja til að jafna sveiflur í ríkisrekstrinum. Þetta er ASÍ. Þau hafa einnig gagnrýnt fjárlaganefnd fyrir skort á samráði við hagsmunaaðila vegna skerðingar fjárframlaga til viðkvæmra málaflokka á borð við örorkulífeyri, sjúkrahúsþjónustu, lyf og þróunarsamvinnu. Það tók sem sagt ríkisstjórnina tvo mánuði að hvika og fara frá nýgefnum loforðum sínum gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og fyrirheitum sínum í skatta- og velferðarmálum. Það má eðlilega spyrja hvort þetta séu þá hinir raunverulegu lífskjarasamningar sem ríkisstjórnin ætlaði sér síðan alltaf að lenda. Hún ætlaði bara alltaf að lenda þessum samningum og jafnvel verða þær á endanum verri eða slakari og veikari, skuldbindingarnar sem síðan koma upp úr hatti ríkisstjórnar.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa líka gagnrýnt fjármálaáætlunina og benda á að gert sé ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma um 26,4% á tímabilinu, en framlagið er aukið um rúmlega 7%. Þetta kemur auðvitað ekki heim og saman. Enn og aftur fara hljóð og mynd ekki saman. Þetta hlýtur að kalla á frekari skoðun og það er ekki hægt lengur fyrir okkur þó að vissulega hafi verið tekin ágætisskref í eflingu hjúkrunarheimila úti á nesi, þar er verið að byggja upp núna og koma upp Sólvangi, horfumst við samt ekki í augu við þann vanda þegar kemur að þörfinni á fjölgun hjúkrunarrýma. Það er einfaldlega verið að slá verkefnum framtíðarinnar enn og aftur á frest.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og greiningardeild Arion banka vara við of mikilli bjartsýni við gerð stefnunnar nú sem fyrr. Þetta er ekki bara Viðreisn, fleiri eru að segja þetta sem hingað til hefur verið nokkurt mark takandi á.

Viðskiptaráð segir mjög skýrlega og skilur eins og við að það þarf að endurskoða. Ég er ekkert endilega að gagnrýna það harkalega að það þurfi að endurskoða. Það þarf bara að horfast í augu við þann mikla galla sem ríkisstjórnin skilaði í gegnum síðustu fjármálastefnu og það er verið að laga hann. Ég tek undir með Viðskiptaráði, það er kannski ekkert óeðlilegt hvað það varðar. En Viðskiptaráð tekur ýmislegt merkilegt fram að mínu mati og því finnst t.d. skjóta algjörlega skökku við að fjármálastefnan nái eitt og hálft ár aftur í tímann. Lækkun banka- og tekjuskatts og innviðauppbygging hefur ekki verið sett í forgang. Ríkisstjórnin ákveður að fresta lækkun skatta, m.a. bankaskattsins, það er voðalega vinsælt og ég skil vel að það virðist falla vel í kramið að segja bara: Við ætlum ekki að lækka bankaskattinn. Bankaskatturinn hefur tvíþætt áhrif, annars vegar getur hann haft og hefur áhrif á aukinn kostnað bankanna sem skilar sér náttúrlega beint út í verðlag til viðskiptavina bankanna en ekki síður hitt sem okkur finnst skipta máli, að hann gerir ekki nægilega mikið … Hvað bankana varðar höfum við lagt áherslu á í fjármögnun okkar tillagna að einn þriðji Íslandsbanka verði seldur. En það er ekki fýsilegur valkostur meðan við erum með allt of háan bankaskatt, miklu hærri en öll Norðurlöndin. Ég er almennt í minni pólitík mjög hrifin af að horfa til þess sem Norðurlöndin hafa verið að gera. Við gerum bara ekki nóg af því þannig að ef við höfum einhvern áhuga á því — og þarna finnst mér enn og aftur t.d. Sjálfstæðismenn, hægri mennirnir, bakka fyrir vinstri mönnum, forræðishyggjunni — menn eru með þessu að senda út þau skilaboð að við ætlum ekki að fara í sölu á bönkunum. Ég tel það miður, sérstaklega núna af því að það eru verkefni fram undan sem við þurfum og verðum að fara í til að minnka áhrif niðursveiflunnar á fjölskyldur, einstaklinga og ekki síst fyrirtæki, ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki vítt og breitt um landið.

Við í Viðreisn höfum lagt fram, eins og ég segi, okkar tillögur að úrbótum á þeim breytingum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur borið undir þingið. Við kynntum fyrir viku, sýndum á spilin eins og við segjum og lögðum fram tillögur sem yrðu til þess fallnar að veita ríkissjóði og þjóðinni svigrúm til að takast á við þau efnahagsáföll sem að einhverju leyti eru hafin og við sjáum að hagfræðingar eru m.a. að benda á að niðursveifla muni koma af einhverjum krafti núna í haust. Það eru ákveðin svæði sem maður hefur verulegar áhyggjur af, eins og t.d. Suðurnesin, með ákveðin tímabundin störf í sumar, hvaða áhrif fall WOW og þrengingar í ferðaþjónustunni munu hafa, ekki síst á Suðurnesjum.

Við teljum mikilvægt að veita ríkissjóði og þjóðinni svigrúm til að takast á við efnahagsáföll sem blasa við, að gefa hagkerfinu súrefni á meðan við göngum í gegnum enn eina hagsveifluna. Meðan við erum með íslensku krónuna munum við fara í gegnum hagsveiflur. Aðrar þjóðir gera það líka. En hættan hjá okkur er að hagstjórnin verði aftur og aftur þannig að dýfan verði dýpri, alveg eins og uppsveiflan verði hærri og krappari. Þess vegna komum við m.a. með okkar tillögur inn í þetta. Við teljum mikilvægt að skattar verði alls ekki hækkaðir, frekar lækkaðir, og við hljótum að spyrja okkur hvort ekki sé hægt að flýta áformum um frekari lækkun tryggingagjaldsins. Ekki síst lækkun tryggingagjaldsins mun koma sér best fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem þurfa að velta hverri krónu fyrir sér bara til að ráða einn starfsmann. Við gætum þannig ýtt undir bæði störf í nýsköpunar- og sprotageiranum sem við þurfum svo tilfinnanlega á að halda til skemmri og lengri tíma, þ.e. að nota efnahagsstjórnina til að huga að framtíðinni, þannig að við leggjum áherslu á þetta og við leggjum áherslu á að fjárfesta í innviðaverkefnum í samræmi við þá stöðu sem blasir við í hagkerfinu. Ríkisstjórnin þarf að auka fjárfestingar til að minnka áhrif samdráttarins á þessa þætti, á heimilin og fyrirtækin í landinu. Tillögur okkar snúa að auknum fjárfestingum upp á 60 milljarða kr. á næstu þremur árum. Hvernig? Hvernig á að gera það? Það er það sem við í Viðreisn höfum alltaf lagt áherslu á, fyrir kosningarnar 2016, fyrir kosningarnar 2017 og líka í borginni 2018, að segja hvernig við ætlum að fjármagna þetta. Við viljum ekki fara þessa sömu leið, að lofa á mjög óábyrgan hátt, eiginlega ljúga að kjósendum, 80, 90 eða 100 milljörðum hverju sinni, en geta síðan ekki staðið við það. Það er veruleikinn sem blasir við í dag og þess vegna segjum við að við viljum gjarnan að þessar framkvæmdir verði fjármagnaðar að hluta með sölu á þriðjungshlut ríkisins í til að mynda Íslandsbanka. Við viljum að ríkið haldi áfram að eiga Landsbankann. Ég ætla ekki að fara út í það að bara allir ætli að fara í að selja alla bankana. Við erum að tala um í þessu skrefi að seldur verði þriðjungshlutur ríkisins í Íslandsbanka. Við teljum að ríkisstjórnin hafi vanáætlað fækkun ferðamanna, ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til hægari vaxtar í einkaneyslu og íbúðafjárfestingu, og hafi þar af leiðandi líka vanmetið gengisbreytingar krónunnar. Slík óvarfærni getur haft í för með sér að efnahagslægðin verði dýpri eins og ég hef talað um og væntingar munu þá að einhverju leyti bresta af því að ríkisstjórnin hefur ekki gefið svigrúm til að bregðast við. Óvissusvigrúmið er of lítið. Fjármálaráð bendir á að það þurfi að auka óvissusvigrúmið og við leggjum til að það verði aukið upp í 1,5%, ellegar munum við sjá fram á að það verði meira atvinnuleysi en þörf er á, eða ekki „sem þörf er á“, heldur sem við gætum staðið frammi fyrir. Staða þjóðarbúsins verður verri og lægri kaupmáttur heimilanna. Þetta er hægt að koma í veg fyrir ef við förum skynsamlega inn í þessa niðursveiflu.

Fjárfestingar hins opinbera hafa verið langt undir meðaltali allar götur frá hruni og þess vegna er mikilvægt að nýta þennan efnahagsslaka núna til að örva hagkerfið.

Við teljum að fjárfestingar í vegakerfinu hafi ekki haldist í hendur við þessa gífurlegu aukningu sem fylgt hefur m.a. ferðamannastraumi síðustu ára. Umferð á vegum hefur aukist langt umfram framlög til vegagerðar og þess vegna teljum við mjög mikilvægt að hraða vegaframkvæmdum sem tengjast m.a. borgarlínunni, tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsbrautar og því til viðbótar verður að leggja aukna áherslu á fjárfestingar í heilbrigðis- og loftslagsmálum sem eru náttúrlega eitt brýnasta verkefni samtímans. Á þessum forsendum erum við líka að leggja til að óvissusvigrúmið fari úr 0,4% í 1,5% en ekki síður hitt, að við erum að taka tillit til þess í auknari mæli en ríkisstjórnin gerir, að sveitarfélögin sjálf þurfi líka svigrúm. Við getum ekki skilið eftir öll þau verkefni sem blasa líka við sveitarfélögunum án þess að rétta þeim einhverja aukna líflínu.

Þetta eru tillögur sem við höfum lagt fram og ég ítreka að ég sé að fjármálaráð er ekkert á ósvipuðum slóðum. Framtíðin þarf ekki að vera svört, leiðin að bættri framtíð og betri tíð fyrir almenning í landinu er í gegnum raunhæfar áætlanir í fjármálastefnu og áætlun ríkisstjórnarinnar. Hún verður að vera raunhæf og það er það sem sérfræðingar og umsagnaraðilar hafa ítrekað bent á. Viðskiptaráð, Samtök iðnaðarins og fleiri segja að fjármálastefnan byggist á bjartsýnustu spánni. Þau vara sérstaklega við því um leið að þau ítreka að sérstaklega þurfi að taka lög um opinber fjármál til endurskoðunar. Ég er sammála því, það er eins og mig minni einmitt að Viðskiptaráð hafi sagt í umsögn sinni að það sé eins og reglurnar séu að fjarlægjast markmiðin sem slík. Í rauninni sjáum við þess stað í gegnum framlag og tillögur ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Við verðum líka að átta okkur á því að framtíðin er björt, sem betur fer, örlítið svartnætti getur verið fram undan en hún er til lengri tíma litið björt, það birtir alltaf yfir aftur og það styttir upp og regnið hættir og sólin kemur, hún hefur verið þráfaldlega yfir landinu undanfarið. Við viljum líka draga fram að það er algjör óþarfi af hálfu ríkisstjórnarinnar að láta fólkið í landinu standa úti í kuldanum meðan niðursveiflan varir, með enga húfu eða vettlinga. Þess vegna skiptir máli að tillögur okkar í Viðreisn hljóti brautargengi á Alþingi. Við leggjum einnig mikla áherslu á að samhliða þessu verði farið vandlega yfir árangur af útgjaldaaukningu síðustu ára. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur. Það hefur tíðkast allt of lengi að engin mælanleg markmið hafi verið sett fram um hvaða árangri sé stefnt að með útgjaldaaukningunni. Úr því verður að bæta og ber að bæta og það verður að leita allra leiða í kólnandi hagkerfi til aukinnar skilvirkni, hagræðingar og bættrar nýtingar svo ekki þurfi að koma til skerðingar á grunnþjónustu og öðrum mikilvægum stoðum samfélagsins. Þetta hangir líka saman. Ef við aukum ríkisútgjöld verðum við að vita að fjármagnið skili sér þangað sem það á að fara. Við horfum náttúrlega upp á hróplegt ósamkomulag, t.d. ríkisstjórnarinnar, um það hvernig við leysum biðlistana í liðskiptaaðgerðum og fleiri aðgerðum af því að ríkisstjórnin vill ekki horfast í augu við vandann því að það má ekki nota fjölbreytta þjónustu opinberra aðila sem einkaaðila til að leysa vanda og þjáningar fólks sem er búið að vera misserum og jafnvel árum saman á biðlistum.

Virðulegur forseti. Við í Viðreisn höfum kynnt okkur tillögur og talað fyrir leiðum til að gera lífsviðurværi Íslendinga betra og við höfum það gert allt frá stofnun flokksins. Við munum halda þessum málflutningi á lofti áfram og halda áfram að leggja til lausnir sem við teljum skynsamlegar á hverjum tíma, þótt mér finnist ríkisstjórnin allt of oft ekki leggja við hlustir. Við lofum, eins og ég hef sagt áður, að fara ekki í milljarðaloforðaflaum rétt fyrir kosningar sem síðan engin innstæða er fyrir. Við vonum a.m.k. að landsmenn muni á endanum heyra og átta sig á því að það er ekki ábyrgt stjórnmálaafl sem lofar öllu fögru og getur síðan ekki staðið við það, heldur er það ábyrgt stjórnmálaafl sem segir hlutina eins og þeir eru og kemur heiðarlega fram við kjósendur. Það er nákvæmlega það sem gagnast heimilum og fyrirtækjum best, engar skýjaborgir heldur loforð sem hægt er að standa við.