149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og formanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir prýðisræðu. Það er svo margt í ræðu hv. þingmanns sem er alveg tilefni til að fara yfir. Mér fannst meginstefið jafnvel tóna við viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagsframvindunni, þessari snöggu niðursveiflu. Hv. þingmaður talaði um súrefni og ég sé það líka á breytingartillögum frá Viðreisn þar sem farið er með óvissusvigrúmið í 1,5. Við í meiri hluta hv. fjárlaganefndar leggjum til að fara úr 0,4 í 0,8. Það er hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á, það þarf að skoða aðrar hagspár. 8. gr. laga um opinber fjármál er reyndar býsna skýr um að þetta skuli vera opinberar hagspár. Hingað til hefur það verið hagspá Hagstofunnar, en líta ber til fleiri spáa og það er það sem nefndin gerði. Miðað við tillögur sem hv. þingmaður fór yfir hefur hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, fylgst býsna vel með umræðunni sem hann gerir alltaf. Hann er mjög glöggur og hefur komið með góðar ábendingar.

Hluti af þessu er að fara í 14,5 og þá erum við að horfa til svartsýnisspáa. Ég spyr: Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að það ryðji þá út t.d. (Forseti hringir.) þessu mikilvæga samspili við peningastefnu sem þarf að vera?