149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta eru akkúrat þær vangaveltur sem hv. fjárlaganefnd fór í gegnum. Það er þetta með óvissusvigrúmið og samskipti við sveitarfélögin. Það hefur kannski ekki komið nægilega fram í umræðunni en það var fallið frá upphaflega áætlaðri frystingu sem er afar jákvætt. Fjárlaganefnd beitti sér a.m.k. fyrir samtali í þeim efnum og átti ágætissamtal við sveitarfélögin.

Í endurskoðaðri fjármálastefnu er gert ráð fyrir að skapa aukið svigrúm fyrir sveitarfélögin, að þau geti sveiflast niður. Það varð einhver umræða um að óvissusvigrúm ætti að nýtast sveitarfélögunum beint en nú er innbyggt í fyrirkomulagið hvernig samskipti sveitarfélaganna eru. Það er aukið samráð þannig að óvissusvigrúmið á að geta nýst í gegnum þau samskipti.

Ég ítreka að Viðreisn hefur verið býsna samkvæm sjálfri sér í því að tala um útgjaldavöxtinn. Við í meiri hluta nefndarinnar erum með mjög gott yfirlit frá 2011 með hjálp ritara nefndarinnar og þar sér maður þegar maður horfir yfir sviðið að það er gífurlegur útgjaldavöxtur. Við verðum líka að horfa á hvaðan við erum að koma, frá efnahagshruni þar sem var erfitt að viðhalda samgöngum og öðru og reynt að verja velferðarkerfin o.s.frv. Það er þrýstingur á útgjaldavöxt. Þetta er ekki bara pólitískur þrýstingur.

Ein af tillögunum er að selja Íslandsbanka og það hefur vissulega verið rætt og heimild gefin til þess. Nú erum við að eignfæra með hlutdeildaraðferð eignir eins og bankana og það er ekki endilega víst að við séum með kaupendamarkað á þessum tímapunkti. Það fer eftir því hvernig við seljum hann hvernig þetta er bókfært.