149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að skoða þróunina alveg frá 2011. Við drögum líka fram að fjárfestingar núna frá þeim tíma eru undir sögulegu lágmarki. Frá 2011 hefur líka ferðamannastraumurinn orðið miklu meiri en spár gerðu nokkurn tímann ráð fyrir. Vegakerfið hefur ekki undan. Meðal annars þess vegna leggjum við í Viðreisn fram okkar tillögur og þær eru fullfjármagnaðar. Við erum ekki að lofa einhverju sem er ekki fullfjármagnað. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Það skiptir okkur líka miklu máli að gaumgæfilega verði farið í það hvernig við höfum sett útgjöldin og hvernig þeim hefur verið dreift.

Svo ég fullklári að svara spurningunni síðan áðan um óvissusvigrúmið vil ég segja að inni í því eru auðvitað fjárfestingarnar. Við erum með þær fullfjármagnaðar með sölunni á bönkunum. Ég undirstrika að við getum rætt um það hvort og hvernig við eigum að selja Íslandsbanka eða ekki en eins og tillögur ríkisstjórnarinnar liggja fyrir núna erum við ekki að gera það fýsilegt fyrir fjárfesta að fjárfesta í íslensku bönkunum. Við gerum það ekki með miklu hærri bankaskatti en þekkist nokkurs staðar annars staðar. Mér finnst ríkisstjórnin vera að segja að hún ætli ekki að fara í að selja bankana enda vitum við að forsætisráðherra og hennar flokkur er frekar andsnúinn því.

Við þurfum samt að fara í þessar framkvæmdir, ekki bara af því að brýn þörf sé á að gera það fyrir innviðina heldur ekki síður til að minnka áhrif niðursveiflunnar sem verður einhver á íslensk heimili og fyrirtæki. Þess vegna erum við að fara svolítið aðrar leiðir en ég undirstrika að við erum ekki að lofa upp í ermina á okkur. Við erum raunsæ. Við viljum einfaldlega rífa (Forseti hringir.) plásturinn strax af sárinu til að við getum sagt fólkinu okkar í landinu hvernig hlutirnir eru í raun og veru og hvernig við ætlum síðan að leysa vandann.