149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:23]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum fjármálastefnu og fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd hefur farið ágætlega yfir tillögur okkar við litla kátínu sumra stjórnarliða þannig að ég ætla að einbeita mér að stærri myndinni. Vissulega hafa orðið miklar breytingar á efnahagshorfum landsins en langt frá því að gefa þó tilefni til þess að við stöndum hér með breytingar á fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem gjörsamlega óvænta stöðu. Þessar breytingar eru einfaldlega eitthvað sem við í okkar litla og allt of einhæfa hagkerfi, með örveika sveiflandi mynt þekkjum óskaplega vel. Ríkisstjórnin setti sér fjármálastefnu í upphafi sem átti að duga til fjögurra ára en hélt í 14 mánuði. Upphafleg stefna var líka gagnrýnd harðlega, ekki bara af stjórnarandstæðingum heldur líka fjármálaráði, af ýmsum hagsmunasamtökum, og ef ríkisstjórnin hefði látið svo lítið að hlusta eitt andartak þá værum við ekki í þessari stöðu nú að vera að breyta stefnunni.

Staðan sem við erum í varðandi ríkisfjármálin er heldur ekkert óvænt og það er einkenni góðra búskaparhátta að safna í sarpinn þegar vel gengur til að geta gengið á forðann þegar harðnar á dalnum. Það hafa ríkisstjórnir síðustu ára einfaldlega ekki gert. Þær hafa þvert á móti gefið eftir tekjur í uppsveiflu, á toppi hagsveiflu, og á sama tíma hafa þær leyft innviðunum að grotna niður. Velferðarkerfið okkar hefur a.m.k. mætt of miklum afgangi.

Við þær aðstæður sem nú eru skapast sú hætta og reynslan sýnir okkur það að þegar þarf að draga saman og skera niður verði það hjá þeim hópum sem síst mega við því. En aðhald er hægt að sýna með fleiri en einum hætti, ekki bara að skera niður, það er líka hægt að auka tekjur. Fjölmargir hópar sem fengu ekki að njóta fordómalauss uppgangs síðustu ára í sama mæli og við sem erum hér a.m.k. þurfa nú að beygja sig undir niðurskurð á milli umræðna, svo því sé haldið til haga. Það ætti auðvitað að vera höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar að verja þessa hópa og það hefði verið hægt að forgangsraða öðruvísi, en það hefði líka verið hægt að láta auðmenn og stórfyrirtæki sem nýta takmarkaðar auðlindir leggja meira af mörkum. Við erum t.d. að rukka fjármagnstekjuskatt sem er miklu lægri en annars staðar á Norðurlöndunum og þó að við hækkuðum hann um tvö prósentustig værum við enn undir því sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Mér finnst skammarlegt að 10.–11. ríkasta land í heimi geti ekki boðið öllum upp á öryggi og aðstæður sem gera fólki kleift að lifa með reisn og spara fjármuni annars staðar í kerfinu eins og við þekkjum svo vel. Mér finnst skorta metnað og framsýni og mér finnst ríkisstjórnin ekki fjárfesta í framtíðinni og þekkingu, nýsköpun og menntun þjóðarinnar. Það sýna breytingartillögur fjárlaganefndar ágætlega.

Herra forseti. Fyrir 14 mánuðum sagði ég: Það er óskynsamlegt að gefa eftir þessar tekjur á toppi hagsveiflunnar um leið og ráðast á í varanlega og vissulega nauðsynlega útgjaldaaukningu. Hér er ekki verið að búa í haginn fyrir mögru árin. Það er verið að stíga bensíngjöfina í botn á toppi uppsveiflunnar án þess að afla tekna fyrir útgjöldum. Það gefur því augaleið að ef bjartsýnustu hagspár ganga ekki eftir þarf að draga saman og þá fer niðurskurðarhnífurinn á loft. Hvað verður fyrst fyrir honum? Jú, reynslan kennir okkur að það verður í velferðinni. Raunar má segja að í þessu felist bæði hagstjórnarleg mistök og kosningasvik þar sem stórsóknin sem boðuð var á öllum sviðum í innviðauppbyggingu er langt frá því að vera sú sama og lofað var.

Þingmenn Samfylkingarinnar þá gagnrýndu fjármálaáætlun harðlega, ekki eingöngu vegna innihalds hennar og forgangsröðunar sem okkur hugnaðist ekki, heldur töldum við einmitt að í henni birtist óábyrg hagstjórn sem væri byggð á óraunsæjum forsendum. Við vöruðum margítrekað við því að ef ekki væri búið í haginn fyrir mögru árin myndu stjórnvöld lenda í þeirri spennitreyju sem fjármálaráð og fleiri aðilar hafa svo oft nefnt í ábendingum sínum.

Fjármálaráð hefur einmitt varað margoft við þessum veikleikum og þegar fjármálaáætlun var fyrst lögð fram 2018 sagði fjármálaráð, með leyfi forseta:

„Ekkert borð er fyrir báru í fjármálum hins opinbera og mjög lítið má út af bregða við mestu óvissuaðstæður sem þjóðarbúið hefur búið við frá hruni.“

Hér var ekki um ófyrirséða atburði að ræða. Því var spáð að þetta gæti einfaldlega gerst.

Við framlagningu fjármálaáætlunar núna í apríl sagði fjármálaráð m.a., með leyfi forseta:

„Að öllu virtu virðast stjórnvöld hafa lent í spennitreyju eigin stefnu hvað varðar afkomumarkmið. Stjórnvöld eru komin í þessar ógöngur vegna verklags og framvindu í stefnumörkuninni. Fjármálaráð hefur ítrekað varað við að slík staða gæti komið upp.“

Þetta gæti varla verið skýrara, herra forseti. Nú hefur ríkisstjórnin sem sagt tekið upp á því að grípa til skæra og klippa sig úr spennitreyju sem þau hafa fest sig svo kirfilega í. Breytingar á fjármálastefnu eru nefnilega ekki léttvægar og þetta er stór áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar, að hagstjórn og stefna sem áttu að duga í fjögur ár dugði í 14 mánuði.

Vissulega er mikil óvissa uppi í hagkerfinu og þá þarf útsjónarsamar, nákvæmar, snjallar og skipulegar aðgerðir til að bregðast við aðstæðum og nauðsynlegri innviðauppbyggingu. En hvað gerir ríkisstjórnin ef bjartsýnustu spár ganga ekki eftir og að ári höfum við ekki afgang til að ganga í? Hvað gera bændur þá? Að einhverju leyti er þessu svarað í fjármálaáætluninni, en hún byggir þó enn á allt of bjartsýnum forsendum. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðursveiflu í hagkerfinu er birtingarmynd óábyrgrar hægri stefnu og mun bitna á þeim sem síst skyldi. Nú skulu öryrkjar, námsmenn, aldraðir, lág- og millitekjufólk taka höggið af yfirstandandi samdrætti, fólk sem ekki naut uppgangsins í ríkustum mæli.

Ég spyr, herra forseti, hvort hagstjórn Sjálfstæðisflokksins fari ekki að verða fullreynd. Hún er að verða a.m.k. fulldýr fyrir venjulegt fólk og heimilin í landinu. Talsmenn launþegahreyfingarinnar og reyndar einnig atvinnulífsins hafa margsinnis bent á að fleira þarf til en launahækkanir til að tryggja fólki viðunandi kjör. Það þarf réttlátt skattkerfi, almennari barna- og húsnæðisbætur, gjaldfrjálsa almenningsþjónustu en ekki síst öruggan húsnæðismarkað. Þetta er algjörlega samhljóða hugmyndafræði Samfylkingarinnar sem hefur margoft lagt fram tillögur í þessa átt sem ævinlega hafa verið felldar, líka á þessu þingi. Þrátt fyrir breytt vinnubrögð, sem eru meira að segja skrifuð í stjórnarsáttmálann, um breiðari samvinnu og aukna virðingu þingsins hefur ekkert verið gert með þá hluti.

Í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum vöktum við sérstaka athygli á því að það yrði að mynda næstu ríkisstjórn um almenn lífskjör, ella skapaðist erfið staða á vinnumarkaði þegar þrengdi að. Það er nú komið á daginn. Vinstri græn og Framsókn bera þess vegna fulla ábyrgð á þessari hægri stefnu vegna þess að þau meðvitað, og líklega fyrr en marga grunaði, völdu samstarfsaðilana og treystu Sjálfstæðisflokknum best til að halda utan um budduna. Það er staðreynd sem þýðir ekki að hrekja að skattbyrði lág- og meðaltekjufólks á Íslandi hefur aukist meira en í samanburðarlöndum okkar og langt umfram skatta á hæstu launin. Þetta er allt í boði Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans. Það er ekkert í fjármálaáætluninni sem bendir til þess að breyta eigi þessum órétti.

Eftir nýjustu breytingar síðustu tveggja, þriggja vikna er meira að segja margt sem bendir til þess að keyra eigi í enn sterkari átt til hægri. Millitekjuhópunum er út af fyrir sig líka gefið langt nef enda skerðast barnabætur mun skarpar en áður þótt gólfið hafi hækkað lítillega og vaxtabótakerfið okkar er nánast orðið sagnfræði. Forsendurnar eins og ég nefndi áðan, herra forseti, eru býsna brattar, svo ekki sé meira sagt, sem skapar auðvitað óvissu núna þegar taka á síðustu bitana úr frystihólfinu. Það er enn gert ráð fyrir að krónan haldist óbreytt út spátímann. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist ekki. Gert er ráð fyrir að vextir verði óbreyttir, verðbólga óbreytt og að hagvöxtur taki við sér mjög fljótt. Þetta er fugl í skógi, herra forseti, og það væru tíðindi ef þessi stöðugleiki hefði náðst í svo langan tíma í íslensku efnahagslífi.

Ég spyr: Hvað gerist ef allar þessar forsendur bresta aftur? Það er reyndar ekkert OECD-ríki sem hefur upplifað aðrar eins sveiflur í raungengi gjaldmiðils og Ísland síðustu 15 ár. Bara á undanförnum 12 mánuðum hefur gengi krónunnar veikst um 13% en lækkun krónunnar mun auðvitað leiða til hærra verðlags á innfluttum vörum sem við reiðum okkur á. Allir vita hvað það þýðir fyrir heimilin í landinu. Með veikari krónu munum við hugsanlega sjá meiri verðbólgu, hærri vexti og verðlag sem gerir það á endanum hugsanlegt að almenningur standi uppi með kjararýrnun eftir nýgerða samninga. Þegar við pörum þennan veruleika saman við okkar einhæfu atvinnuvegi og skort á hagstjórn þá búum við við mjög hættulegan kokteil. Það væri, eins og ég sagði áðan, freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um að hægri stefnan dafni vel en því miður dafnar hún undir verndarvæng vinstri flokksins, Vinstri grænna, og Framsóknarflokksins sem lengi vel hafði mjög sterka félagslega taug sem hallaðist til vinstri og því eru það vonbrigði.

Herra forseti. Samkvæmt nýjustu spám mun stór hluti allra starfa breytast eða hverfa á næstu árum. Þetta mun þurfa að leiða til meiri framleiðni. Þetta gæti líka minnkað vistspor og hugsanlega dregið úr fátækt ef við höldum vel á spilunum. Þetta gæti líka leitt til hreinna hörmunga ef auðurinn safnaðist í meira mæli hjá fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum. Ójöfnuður gæti aukist og samneyslan gæti veikst; við værum ekki reiðubúin og tilbúin eða hefðum ekki getu til að standa undir velferðinni. Við getum ekki stöðvað þessa þróun eða breytt henni, hún er alþjóðleg og við yrðum þátttakendur í henni. Það þarf hins vegar kjark og framsýni til að tryggja að hún verði okkur til góðs og nýtist heildinni. Fyrsta skrefið er að búa til skattkerfi sem mætir þeirri framtíð. Þar fyrir utan er góður undirbúningur að ráðast í stórátak og fjárfestingu í menntun og því skýtur það bara býsna skökku við að framlög til framhaldsskóla lækki um 1,2 milljarða milli framlagningar áætlunarinnar fyrir tveimur mánuðum og núna, svo ég haldi því til haga. Og heildartalan stendur í stað næstu fimm árin. Háskólinn án LÍN fær sömu tölu og 2024. Hér er einfaldlega enga stórsókn í menntamálum að sjá.

Þekkingargreinar taka líka á sig skell. Nýsköpun og rannsóknir fá tæpum 3,2 milljörðum minna en var áætlað fyrir tveimur mánuðum. Samt mætir hæstv. forsætisráðherra vígreif í Norræna húsið í dag og tilkynnir um nýjan sjóð þar sem á að úthluta 300 milljónum í svipuð verkefni. Hvers konar della er þetta, herra forseti, þegar í skjóli hússins hér er verið að skera niður og það meira að segja borið til baka þrátt fyrir að tölur liggi á blaði, en menn geta mætt á blaðamannafundi og gortað sig af tölum sem eru kannski fimm sinnum lægri en á að skera niður?

Við verðum, herra forseti, að sækja fram og tryggja öllum jafnan rétt til menntunar þannig að ungu fólki finnist eftirsóknarvert að sækja sér hana og búa í þessu landi. Við erum fámenn þjóð sem höfum vissulega mikla möguleika en okkur mun aldrei auðnast það nema við byggjum á fjölbreyttara atvinnulífi og tryggjum að allir sem vettlingi geta valdið séu um borð og rói í sömu átt og að þeim sem ekki geta það af einhverjum ástæðum séu tryggð sómasamleg lífskjör.

Þetta er ein leið okkar til að við getum staðið undir velferðarkerfi framtíðarinnar í mjög breyttum heimi. Við horfum upp á aldurssamsetningu þjóðarinnar breytast ofan á þessar breytingar og við þurfum kröftug fyrirtæki með mikla framleiðni sem eru drifin áfram af áræðnum, framtakssömum einstaklingum sem hafa hugvit. Við þurfum vissulega að stuðla að aukinni samkeppni og fjölbreytni og hvetja til umhverfisvitundar og að allt okkar atvinnulíf byggi þar á. Það er stundum talað eins og atvinnuleysi sé ein skepna og hér er bara rætt um stærstu fyrirtækin. Hér eru heilu stjórnmálaflokkarnir sem ganga erinda þeirra, en staðreyndin er auðvitað sú að meginþorri allra fyrirtækja er lítill og smár, rekinn af harðduglegu fólki sem er drifið áfram af athafnaþrá og hugmyndaauðgi og oft af hugsjón fyrir faginu eða nærsamfélaginu. Við þurfum að auðvelda starfsemi þeirra. Við þurfum sem sagt, herra forseti, að byggja á miklu meira hugviti í stað einfaldrar frumframleiðslu. En það er ekkert sem þessi íhaldssama ríkisstjórn gerir, hún sker mest niður í þessum málaflokkum og stendur best vörð um okkar stóru fyrirtæki sem nýta auðlindirnar fyrir smánarverð sem fulltrúi okkar í fjárlaganefnd hefur bent mér á að sé svipað og tóbaksgjaldið.

Herra forseti. Að lokum vil ég koma inn á umhverfismálin. Síðustu mánuði hafa milljónir ungmenna um allan heim flykkst saman og krafist frekari aðgerða gegn hamfarahlýnun. Nokkur ríki hafa meira að segja lýst yfir neyðarástandi. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála. Við leggjum til tvöföldun á framlögum til umhverfismála nú en minnkum þau ekki um 1 milljarð eins og hér er gert milli umræðna. Við þurfum einfaldlega að fara að hugsa sem hluti af einu stóru mannkyni en ekki að eyða öllu okkar púðri í að reisa múra og girðingar og halda að það sé einhver minnsti möguleiki á að við getum komist af einangruð úti í miðju hafi. Það verður aldrei hægt, herra forseti. Við þurfum á miklu meira alþjóðlegu samstarfi að halda ef okkur á að auðnast að vera í fremstu röð. Slík hugsun þarf líka að vera til staðar í öllum löndum veraldar ef mannkynið á að eiga sér einhverja framtíð.

Við leggjum fram tíu fjármagnaðar tillögur sem annars vegar miða að því að stoppa í verstu og stærstu velferðargötin og hins vegar til að marka sókn til framtíðar.