149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:23]
Horfa

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Eftir að hafa fylgst með umræðum hér í dag er ég hálfhissa á því að sjá Sjálfstæðismenn koma hingað upp blóðheita og segja að víst séu þeir að bæta gríðarlega í kerfið, allt annað sé útúrsnúningur. Það er þó heiðarlegt af þeim því að það eru þeir vissulega að gera, þ.e. að bæta í kerfið. Í mörgum málaflokkum var það gríðarlega mikilvægt, að hjálpa þeim sem höllustum fæti standa og bæta innviði, en annars staðar er bara verið að stækka báknið. Ég tel að það þurfi alls ekki að vera bein lína milli aukinna útgjalda í t.d. innviðauppbyggingu og fjölgunar ársverka hjá ríkinu.

Í því samhengi langar mig að lesa upp úr nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlunina þar sem fram koma áhugaverðar upplýsingar um ársverk ríkisstarfsmanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„… innan A-hluta ríkisins var tæplega 16.400 ársverk árið 2011 en dróst lítillega saman fram til ársins 2015 þegar ársverkin voru 16.243 talsins. Eftir það fjölgar þeim og í fyrra voru um 17.580 ársverk hjá A-hluta. Það er aukning um rúm 7% á tímabilinu í heild og 8% aukning á sl. þremur árum. Þróunin endurspeglar auknar fjárheimildir stofnana á allra síðustu árum þar sem öll fjölgun starfa á sér stað á tímabilinu 2016–2018.

Í breytingartillögum meiri hlutans er m.a. gert ráð fyrir að draga lítils háttar úr áður áætluðum útgjaldavexti nokkurra veigamikilla málaflokka á tímabilinu 2021–2024. Þróun starfsmannafjölda ríkisins bendir til þess að raunhæft sé að ná því fram án þess að koma þurfi til umtalsverðra stefnumarkandi breytinga.“

Hvað sjáum við með þessum tölum? Jú, að það var stefnt í rétta átt en svo er fjölgun ársverka réttlætt því að það hafi verið í línu við stækkun báknsins á árunum 2016–2018. Þótt breytingartillagan sé góð, þar sem báknið á að minnka 2021, spyr ég: Af hverju ekki strax 2020? Eina skýringin sem ég sé er að árið 2021 eru kosningar. Treystir þessi ríkisstjórn sér ekki til að minnka báknið eða vill hún það ekki? Reyndar segir tillagan að raunhæft sé að ná þessu án þess að koma þurfi til umtalsverðra stefnumarkandi breytinga. Mikið vildi ég að einmitt yrði stefnumarkandi breyting á þessu sviði.

Svo er annað sem mig langar að minnast á. Heildarútgjöld á verðlagi ársins 2019 til fjölmiðlunar fara frá því að vera rúmar 4.000 milljónir árið 2018 í rúmar 6.000 milljónir árið 2024. Hugmyndin er ágæt að því leyti að það er ekki bara eitt fyrirtæki í samkeppni sem situr að öllu fjármagninu, en hefði ekki verið kjörið tækifæri að minnka stærð opinbera fyrirtækisins um þótt ekki væri nema fjórðung? Það ætti samt sem áður vel að geta sinnt hlutverki sínu. Svo væri hægt að nýta það fjármagn sem sparast til að allir miðlar geti óskað eftir styrk. Til dæmis mætti úthluta til að framleiða íslenskt efni.

Við vitum að skjánotkun ungmenna hefur aukist gríðarlega og að áhorf línulegrar dagskrár minnkar. Er þá rétt að bæta í án þess að staldra við? Þótt margt neikvætt megi klárlega segja um skjánotkun barna eru jákvæðar hliðar á henni, t.d. fullyrði ég nánast að unga kynslóðin í dag sé miklu betri í ensku en við sem hér erum í þessum sal, a.m.k. ef við berum saman sama aldur.

Það breytir því ekki að ég tel að áhuginn á íslensku efni sé gríðarlega mikill. Það þarf sennilega ekki nema eitt símtal á RÚV eða Stöð 2, eða Símann eða hvern annan sem hefur framleitt íslenskt efni, til að fá staðfest að það er mikill áhugi á íslensku efni en það er takmarkað framleitt enda er það mjög dýrt.

Svo get ég ekki látið hjá líða að minnast á tryggingagjaldið, gjald sem ég tel að hefði þurft að lækka hraðar til að hjálpa atvinnulífinu við að verða betur í stakk búið til að blómstra og geta ráðið t.d. fleira fólk á tímum niðursveiflu. Það er verið að bæta í á mörgum stöðum þar sem þörfin var mikil en þar sem við vitum ekki nákvæmlega hvað er á bak við heildartölurnar vitum við af dæmum sem eru hreint út sagt óskiljanlega óskynsamleg eins og því að verið sé að fljúga með fólk í aðgerðir til útlanda sem kosta margfalt á við að framkvæma þessar aðgerðir hér á landi. Af einhverjum ástæðum er þessu ekki breytt. Þarna er ekki vel farið með fé fólksins í landinu að mínu mati, en ég vona að það sé ekki mikið af svona í þessari áætlun. Ég vona að þau útgjöld sem boðuð eru verði notuð á sem skynsamlegastan hátt þjóðfélaginu öllu til heilla.