149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég átti eftir að klára einn kafla í nefndarálitinu hjá mér og ætlaði síðan aðeins að útskýra breytingartillögu mína við þingsályktunartillögu um fjármálastefnu. Ég byrja á breytingartillögunni við fjármálastefnuna. Þar eru aðallega þrjár línur undir, heildarafkoma ríkissjóðs, heildarafkoma sveitarfélaga — og þá náttúrlega áhrif þeirra á heildarafkomu í A-hlutanum — og svo óvissusvigrúm fyrir skuldir. Þegar greidd verða atkvæði um þessa breytingartillögu lít ég svo á að það sé verið að greiða atkvæði um þessar breytingar en ekki heildina. Þarna er formið aðeins að þvælast fyrir nákvæmninni en breytingin snýst um þessar þrjár línur, heildarafkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga og óvissusvigrúm innan skulda.

Markmiðið þarna er að skila aukinni afkomu á seinni árum tímabilsins upp á ákveðið aðhald í ríkisfjármálum að gera, með t.d. hækkun fjármagnstekjuskatts, og deila því með sveitarfélögum til að koma til móts við verri afkomu sveitarfélaga, t.d. vegna kjarasamninga. Það væri t.d. gert með því að gefa sveitarfélögum hlutdeild í virðisaukaskatti, svo dæmi sé tekið. Það kom fram í umræðum áður að það var ekki alveg skýrt hvað óvissusvigrúm í skuldum þýddi en það þýðir einfaldlega að það sé svigrúm til að halda skuldaþakinu hærra en gert er ráð fyrir ef efnahagsmál fara á verri veg, ef verg landsframleiðsla fer að minnka, sem þýðir að það yrði að borga niður skuldir til að halda sama skuldahlutfalli. En ef verg landsframleiðsla minnkar má halda sömu heildarskuldaupphæð sem breytir þá skuldahlutfallinu sem verður hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta er til að geta haft smásvigrúm í því hvaða ákvarðanir eru teknar um fjármögnun hvað varðar skuldir og afkomu.

Aðeins síðan um síðasta kaflann í nefndarálitinu, um lífskjarasamninga varðandi fjármálaáætlun. Þann 2. apríl sl. birtist grein í Kjarnanum þar sem fullyrt var að forsenda þess að kjarasamningar yrðu að veruleika væri aðkoma stjórnvalda og þarna er tilvitnun í Ragnar Þór í VR. Þá var gefin út yfirlýsing með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda um meginlínur kjarasamninga. Þar kemur fram að ómögulegt sé að vita hvers sé að vænta frá stjórnvöldum. Einnig kom fram í fjölmiðlum að „aðkoma ríkisins þyrfti að vera umtalsverð“, með leyfi forseta. Það er nauðsynlegt að skoða þessa yfirlýsingu í samhengi við birtingu fjármálaáætlunar þar sem stefna stjórnvalda kemur fram, en henni var dreift 23. mars sl., rúmri viku áður en þessi yfirlýsing var gefin út. Strax daginn eftir birtust aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Þarna birtist hugtakið lífskjarasamningur fyrst og verður að teljast tiltölulega líklegt að það hugtak hafi verið skipulagt fyrir fram fyrst búið var að prenta út falleg auglýsingaskilti með hugtakinu, eins og sjá má á mynd sem birtist í frétt á mbl.is.

Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru nefndar 45 aðgerðir til stuðnings lífskjarasamningum. Skjal sem fylgir þeirri tilkynningu inniheldur hins vegar bara 38 atriði. Enn hefur ekki komið svar um hvaða sjö aðgerðir vantar í skjalið. Þegar aðgerðirnar eru skoðaðar virðist enn fremur koma í ljós að flestar ef ekki allar aðgerðirnar eru þegar taldar upp í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hvernig má þá vera að rúmri viku eftir að stefna stjórnvalda birtist sé kallað eftir umtalsverðri aðkomu ríkisins og að daginn eftir það birtist allt í einu einhverjar aðgerðir til stuðnings samningum sem eru allar þegar í áætluninni? Hvernig má vera að þær aðgerðir geti talist sem þessi umtalsverða aðkoma? Hvernig tókst stjórnvöldum að prenta upp svona fallega auglýsingaborða utan um stuðningsaðgerðir sínar sem kallað var eftir á svona stuttum tíma? Eina augljósa svarið er að allt hafi verið tilbúið áður en kallað var eftir myndarlegri aðkomu stjórnvalda. Einnig er augljóst að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins vissu alveg um innihald þeirra aðgerða sem stjórnvöld hugðust leggja fram til þess að koma til móts við samningana þegar kallað var eftir umtalsverðri aðkomu, samanber það að þær eru allar í fjármálaáætlun og miðað við orð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, með leyfi forseta:

„Ég mun sannarlega mæla með þessum samningum og auðvitað er ég bjartsýn á að fólk samþykki þessa samninga, við munum fara rækilega í það að kynna þá fyrir félagsmönnum.“

Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að lokinni kynningu á lífskjarasamningunum í apríl.

Þegar allt kemur til alls er þetta einfaldlega bara tvöföld kynning á ákveðnum atriðum í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem látið var líta út fyrir að aðgerðir til aðkomu að lífskjarasamningum væru viðbót við það sem hefur komið fram í fjármálaáætlun. Þessi atburður var eflaust kokkaður upp af einhverjum almannatengli til þess að gera meira úr stefnu stjórnvalda en efni voru til.

Þegar ráðherrar voru spurðir um málið í kjölfarið kom einmitt í ljós að aðgerðir stjórnvalda væri að mestu leyti að finna í fjármálaáætlun, aðgerðir sem voru einmitt komnar fram áður en kallað var eftir umtalsverðri aðkomu stjórnvalda. Það versta við þetta allt saman er að þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, nú rúmum tveimur mánuðum seinna, hefur fjármálaráðuneytið ekki getað útvegað greinargóða útskýringu á því hvaða áhrif lífskjarasamningarnir hafi á fjármálaáætlunina. Hvaða atriði eru í lífskjarasamningunum en ekki í fjármálaáætluninni? Ekki hefur enn komið svar til fjárlaganefndar þegar þetta er ritað — og þegar þetta er talað — um hvaða atriði á aðgerðalista ríkisstjórnarinnar eru ný og hvort umfang annarra atriða hafi aukist eða minnkað. Þögnin er einfaldlega ærandi.

Það er ekki boðlegt að samþykkja slíka fjármálaáætlun. Því legg ég enn og aftur til að fjármálaáætluninni verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar út af skorti á gagnsæi, út af því að kostnaðaráætlun vantar, út af því að ábatagreiningu vantar, út af því að forgangsröðun vantar, út af því að við höfum ekki hugmynd um hvaða áhrif aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga hafa á áætlunina. Út af því að það vantar fjármagn fyrir nauðsynlegan og fyrirsjáanlegan rekstur hjúkrunarheimila. Af öllum þessum ástæðum og fjöldamörgum öðrum er ekki boðlegt að eyða tíma þingsins í svona fjármálaáætlun. Ég get ekki verið öllu skýrari með þetta. Til þess að Alþingi geti tekið ákvörðun um hvort fjárheimildirnar séu að fara í þau verkefni sem ríkisstjórnin segir vegna stefnu ríkisstjórnarinnar þarf ríkisstjórnin að útvega okkur lista af kostnaðarmetnum og ábatagreindum aðgerðum og forgangsraða þeim lista eftir því hvað hún telur mikilvægast og hvað síst mikilvægt til að við getum séð að ef fjárframlög eru minnkuð eða jafnvel aukin hvaða verkefni eða aðgerðir bætast við eða detta út.

Með tilvísun í þann farsa sem var í kringum tilkynningu um lífskjarasamninga og þess að ríkisstjórnin hefur ekki enn þá svarað hvaða áhrif þessir kjarasamningar hafi á fjármálaáætlun, sem virðast núna eftir á að hyggja vera engin áhrif, því að það var þegar búið að leggja fram öll atriðin í fjármálaáætlun í mars, finnst mér einfaldlega ekki vel að verki staðið. Mér finnst þetta vera ákveðin blekking um hver aðkoma stjórnvalda sé að kjarasamningum og mér líkar það ekki. Þess vegna vil ég senda þetta aftur í fang ríkisstjórnarinnar svo hún geti skilað okkur betri og gagnsærri fjármálaáætlun.