149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Um margt hefur verið úr vöndu að ráða fyrir ríkisstjórnina, eðli málsins samkvæmt. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það sem ég hef venjulega boðað hér er að mér hefur þótt forgangsröðun fjármuna ekki rétt. Nákvæmlega þess vegna höfum við í Flokki fólksins lagt fram ákveðna breytingartillögu. Hún felur í sér útgjöld en þau útgjöld eru ekki kostuð með aukinni skattheimtu heldur með því að sækja fé þar sem það er fyrir. Við viljum ekki fresta lækkun bankaskattsins á tímabilinu. Við viljum ekki breyta veiðigjaldinu þannig að það lækki um 4,3 milljarða í ár eins og raun ber vitni og við viljum gjarnan fá að horfa fram á að við nýtum verðandi hugsanlega innspýtingu í nýjan þjóðarsjóð, sem er einhvers staðar á dagskránni, í okkar þágu og okkar minnstu bræðra og systra. Það er nákvæmlega um allt það sem þessir þessi breytingartillaga Flokks fólksins snýst.