149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:39]
Horfa

Forseti (Guðjón S. Brjánsson):

Samkomulag er milli forseta og formanna þingflokka um fyrirkomulag umræðunnar í dag sem byggist á öðru samkomulagi sem gert var í júní sl. til að ljúka þingstörfum fyrir sumarhlé. Í upphafi umræðunnar fá talsmenn allra þingflokka tíu mínútur hver og verða andsvör leyfð.

Talsmenn þingflokka tala í eftirfarandi röð: Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Flokkur fólksins.

Eftir þetta gilda venjulegar ræðutímareglur en forseti mun þó horfa til þess að enginn þingflokkur fái meira en klukkutíma til umráða í umræðunni. Andsvör eru þar ekki meðtalin. Frá því viðmiði má víkja ef svigrúm verður til þess síðdegis með hliðsjón af mælendaskrá. Ekki er gert ráð fyrir hádegishléi.

Forseti mun funda með formönnum þingflokka seinni partinn til að tryggja að umræðu um málið verði lokið fyrir kl. 20.