149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er áhugavert að hv. þingmaður telji mig ekki hafa tekið dæmi af því að ég tók a.m.k. tvö dæmi um útúrsnúning. Það er auðvitað ákveðinn útúrsnúningur að vísa í álitsgerð sérfræðinga en vera líka ósammála niðurstöðu þeirra og nota álitsgerðina til röksemda. Það er mjög skýrt að þeir sömu fræðimenn sem hv. þingmaður vísar stöðugt í segja að enginn lögfræðilegur vafi sé á því að sú leið sem er lögð til af þeim og er lögð til grundvallar þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar sé í samræmi við stjórnarskrá og að sú staðreynd skipti mestu. Það er niðurstaðan.

Ég veit ekki betur en að það sé útúrsnúningur að nota ákveðin orð úr álitsgerð en vera síðan ósammála niðurstöðunni í sömu álitsgerð. Það hlýtur einfaldlega að vera útúrsnúningur hjá hv. þingmanni. Það er einnig útúrsnúningur að tala um hvernig sérfræðingur talar um lagalega fyrirvara, sem taldi að þeir lagalegu fyrirvarar væru með öllu óþarfir af því að það væri ekkert í þriðja orkupakkanum sem gæfi tilefni til þess að þeir væru þarfir.