149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get kannski ekki aðstoðað hv. þingmann mikið við að finna hjá sér viðeigandi skilgreiningu á hugtakinu útúrsnúningur. En hitt vil ég segja að höfundarnir tveir tefla fram tveimur lausnum sem þeir kalla, tveimur mögulegum lausnum. Og ég er sammála aðaltillögu þeirra í málinu. Ég tel hana vandaða og vel undirbyggða. En þegar þeir koma á fund og segja hina tillöguna, sem ríkisstjórnin valdi, vera næstbestu tillöguna felst í því að ríkisstjórnin, og hv. formaður utanríkismálanefndar, valdi lakari kostinn. Ég hef fullan skilning á því, herra forseti, að álitsgerð þeirra félaga sé eins og fleinn í holdi stuðningsmanna þessa máls vegna þess að hún er jörmunsterk og felur í sér mjög veigamikil rök fyrir því að þessi tillaga sé ótæk.