149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:58]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í öllum þessum umræðum, hvort sem er núna hér eða fyrr varðandi þriðja orkupakkann, þá höfum við oft verið að reyna að fá svör frá hv. þingmönnum Miðflokksins um raunveruleikann. Nú hélt hv. þm. Ólafur Ísleifsson því fram, tekur undir það, að skipulag og ráðstöfun orkuauðlinda á Íslandi sé falin erlendu valdi. Þetta er gríðarleg staðhæfing og hún hefur komið fram víðar. Nú langar mig að spyrja: Hvernig gerist þetta? Við sem höfum legið yfir þessu sjáum alls ekki leiðina. Það er hægt að búa hana til en hún stenst ekki raunveruleikann. Nú spyr ég hv. þingmann, og hef gert það áður, hvernig þetta gerist.

Í öðru lagi langar mig að spyrja, aftur um raunveruleikann: Hvar hefur hið erlenda yfirvald hlutast til um skipulag og ráðstöfun orkuauðlinda í þeim 28 löndum sem skipa Evrópusambandið?

Svo skulum við koma að Belgíu, ég ætla að gera það á eftir, því að þar er hv. þingmaður að afflytja raunveruleikann með því að reyna að búa til úr þessu samlíkingu sem ekki stenst.

Spurningin er sem sagt annars vegar: Hvar hefur hið erlenda yfirvald farið svona fram eins og hv. þingmaður heldur fram? Og hins vegar: Hvernig gerist þetta? Hvaða leiðir eru í þriðja orkupakkanum sem opna erlendu yfirvaldi leið til að ákvarða hvar er virkjað, hvenær er virkjað, hvernig er virkjað, hvaða flutningsleiðir eru búnar til innan lands sem utan?

Myndin sem búin er til í þessum orðum stenst á engan máta raunveruleikann. Hún er uppspuni.