149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er einfaldast að svara honum með því ósköp einfaldlega að vísa í álitsgerð þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefán Más Stefánssonar. Ég hef ekkert sagt hér sem ekki er í samræmi við þá álitsgerð. Ég rakti viðvaranir þeirra og þær eru reyndar fleiri en ég taldi, þeim fylgir mikill þungi. Um það er engum blöðum að fletta. Ég vil bara ítreka að hv. þingmanni væri mjög hollt að kynna sér svolítið rækilegar en hann hefur kannski haft ráðrúm til að gera þessa álitsgerð. Hún er auðvitað löng, 44 síður, og þetta er giska mikið torf á köflum. Við erum komin þarna inn á djúpsævi Evrópuréttarins.

En hvernig gerast hlutirnir? Þeir gerast til að mynda þannig eins og þeir lýsa. Þeir gerast með því að höfðað er samningsbrotamál.

25. júlí sl. ákvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að höfða samningsbrotamál gegn Belgíu. Um þetta má lesa á vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta er reyndar tekið fyrir í framhaldsnefndaráliti minni hlutans. Þar er slóðin á þessa vefsíðu ef hv. þingmaður skyldi vilja kynna sér það.

Erindi frá Evrópusambandinu hefur borist til átta landa og er Frakkland sérstaklega nefnt í því sambandi. Frakkar eru eins og við, þeir eru með fyrirtæki svipað okkar Landsvirkjun og mikil samstaða meðal þjóðarinnar eins og hér um að það sé sameign á (Forseti hringir.) því fyrirtæki. Hv. þingmanni er ósköp einfaldlega bent á að kynna sér þann erindrekstur sem Evrópusambandið hefur haft uppi gagnvart Frakklandi og sjö öðrum ríkjum Evrópusambandsins.