149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var erfitt að svara því hvernig þessi erlendu yfirráð fara fram. Hv. þingmaður vísaði til álitsgerðarinnar en meginniðurstöður þessara fræðimanna eru samt sem áður þær að afgreiðsla okkar á þriðja orkupakkanum sé í lagi. Það þýðir að þó að þessi hætta sé fyrir hendi er búið að girða fyrir hana.

Varðandi Belgíu ætla ég að lesa fyrir hv. þingmann eftirfarandi:

„ESB byggir málið m.a. á því að Belgía hafi ekki styrkt valdheimildir belgíska raforkueftirlitsins nægjanlega. Sömuleiðis er byggt á því að belgísk lög tryggi ekki að flutningskerfisstjórar ráði yfir raforku- og gasnetinu sem þeir eru ábyrgir fyrir svo þeir geta ekki verið í þeirri stöðu að tryggja aðgang raforku- og gasbirgja að netinu án mismunar.“

Þetta er mál sem hefur nákvæmlega ekkert með þriðja orkupakkann að gera eða yfir höfuð það sem við erum hér að ræða um. (Forseti hringir.) Þetta er bara gripið úr lausu lofti til að finna eitt dæmi, eitt dæmi sem ekki stenst.