149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Kjarni þessa máls sem lýtur að Belgíu og þeir lærdómar sem við hljótum að vilja draga af því er að þarna er höfðað samningsbrotamál á hendur aðildarríki Evrópusambandsins. Við erum í þeirri aðstöðu að við öxlum skuldbindingar með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og ef það er talið af þar til bærum aðilum, í þessu tilfelli Eftirlitsstofnun EFTA, að við höfum ekki gert það fyllilega réttilega eigum við á hættu að á hendur okkar verði höfðað samningsbrotamál rétt eins og gerðist í málinu varðandi ófrosna kjötið með þeim afleiðingum sem það hefur haft.

Kjarni málsins er sá að hér er lagt upp með grundvallarbreytingu á utanríkisstefnu Íslendinga sem hefur verið sú að við erum tilbúin til að semja um gagnkvæman aðgang að markaði, (Forseti hringir.) en við höfum til þessa ekki verið tilbúin til að semja um aðgang að markaði og láta í staðinn aðgang að auðlind.