149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa sér tíma til að koma hér í andsvar. Hann gaf sér kannski ekki mjög mikinn tíma í umræðunni og þeir segja mest af Ólafi kóngi sem hvorki hafa heyrt hann né séð. Hv. þingmaður var ekki viðstaddur mestanpart þá umræðu sem fór fram og hann vísaði til.

Herra forseti. Ég hætti að telja þegar hv. þingmaður var búinn að nota orðið bull fimm sinnum í ræðu sinni. Ég verð að viðurkenna að það er ekki einfalt að að eiga orðastað með málefnalegum hætti við aðila sem hagar málflutningi sínum á þann veg sem hv. þingmaður gerir. Það er mjög erfitt, maður veit ekki almennilega hvar maður á að byrja eða enda. Hann hefur ekki nefnt nein dæmi um það sem hann kallar bull og sýnir mikið vald á íslenskri tungu með því að hafa ekki fleiri orð sem gætu hugsanlega merkt það sama til að auka fjölbreytileika í ræðuflutningi sínum.

Ég held að ég hafi ekki mikið um þennan málflutning að segja, svo ofsafenginn og öfgakenndur sem hann er og rakalaus, herra forseti. Það tekur því varla að eyða tíma Alþingis í slíkt. [Hlátur í þingsal.]