149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það skýtur kannski nokkuð skökku við, þegar jafn mikið var kallað eftir þátttöku annarra þingmanna í þessari umræðu í vor, að þegar við loks erum mætt nennið þið ekki að eiga við okkur orðastað.

Ég hefði vafalítið getað notað orðin „rakið bull“ talsvert oftar. Ég komst ekki í gegnum allan listann minn á þeim tveimur mínútum sem ég hafði til umráða. En ég skil hv. þingmann mætavel þegar hann kvartar undan því að erfitt sé að eiga orðastað undir því rakalausa bulli sem endalaust er fært fram í þessu máli. Ég skil það mjög vel. Ég er búinn að sitja undir umræðu Miðflokksins, hv. þingmanns og samflokksmanna hans, og ekki er hægt að festa hendur á neinu í málflutningi þeirra sem hægt er að svara með málefnalegum hætti, einfaldlega af því að það er ekki málefnalegur málflutningur. Það er búið að hrekja hverja einustu fullyrðingu sem sett hefur verið fram af hálfu Miðflokksins af hlutlausum fræðimönnum ítrekað í ræðu og riti en á það er einfaldlega ekki hlustað. Þetta mál er fullrætt. (Forseti hringir.) Í því felast engar þær hættur sem Miðflokkurinn hefur haldið hér á lofti og það er orðið tímabært að ljúka þessari umræðu og að þingið taki til við þarfari verkefni en að sóa fleiri klukkustundum í þetta.