149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar réttilega til þess að við höfum nýtt mikla orku í þennan orkupakka og sömuleiðis er kostnaðurinn verulegur. Ég held að vísu að það sé eðlilegt. Þó að mikill kostnaður hafi verið lagður í þetta er það gert vegna þess að mjög margir hafa áhyggjur af orkumálum almennt, að við séum að gera hluti sem eru óafturkræfir og geti komið okkur í vandræði. Það er markmið í sjálfu sér að rýna þetta mál vel og það hefur verið gert, ég er alveg sekur um það.

Hv. þingmaður nefnir — hann er í raun að fara yfir hluti sem ekki voru gerðir í minni tíð — að rafmagnið hefði átt að taka út. En það væri mjög stór og flókin ákvörðun. Við erum með mjög margt í fjórða viðaukanum sem tengist rafmagnstækjum og öðru slíku og við höfum tekið upp orkupakka eitt og tvö með, að því er ég tel, (Forseti hringir.) jákvæðri niðurstöðu að stærstum hluta þannig að það væri mjög stór ákvörðun.