149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þm. Ólaf Ísleifsson til að komast upp úr þessum hjólförum. Það er ekki boðlegt eftir lengstu þingumræðu sögunnar að segja að engin rök hafi komið fram í málinu. Það stenst ekki nokkra einustu skoðun. Ef hv. þingmaður hefur áhuga á því að vita hvenær ég hef verið utanríkisráðherra er það á vef þingsins.

Hv. þingmaður spyr hvað liggi á. Við erum búin að vera með málið í umfjöllun í áratug og í stað þess að klára það í vor, sem við hefðum átt að gera eftir að við frestuðum málinu eftir að það var lagt til við Alþingi undir forystu formanns og varaformanns Miðflokksins að við myndum samþykkja það, skoðum við það aftur. Ég fór yfir þetta allt saman í ræðu minni.

Það sem hv. þingmaður er alltaf að ýja að er að þarna sé eitthvað hættulegt sem sjáist ekki. Menn eru búnir að fara í gegnum alla þá þætti, aldrei verið farið í neitt meira. En ég vek athygli á því (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður gagnrýnir, að legið hafi á, því að það var varaformaður hans flokks sem lagði til að við myndum klára þetta fyrir löngu síðan.