149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er hér að vísa til fræðimannanna sem höfðu áhyggjur af stjórnarskrárþætti málsins. Þeir hafa ekki einu sinni, heldur tvisvar — auðvitað kemur þetta allt fram í álitsgerðinni, í niðurstöðunni — sent sérstök bréf, annars vegar til utanríkismálanefndar og hins vegar til utanríkisráðherra eftir umræðuna. Ég ætla að lesa hér það sem kemur fram í síðara bréfinu til utanríkismálanefndar:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“

Það er enginn vafi en samt sem áður heldur hv. þingmaður áfram að ýja að því og láta að því liggja, les einhverjar setningar upp, þegar þetta er niðurstaðan, algjörlega kýrskýr. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni sem þeir koma fram með þessa áréttingu heldur tvisvar. Af hverju skyldi það vera?