149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tökum að meðaltali 400–500 gerðir upp í íslenska löggjöf í gegnum EES-samstarfið á ári. Markmiðið er að hafa hér sameiginlegan markað og það er okkar hagur. Það er hagur allra en sérstaklega lítilla aðila því að ef við spilum eftir sömu leikreglum á stóra markaðnum eiga fyrirtæki okkar möguleika í samkeppni. (Gripið fram í.) Orkan hefur verið þarna frá upphafi og ef við tökum bara þennan þriðja orkupakka væri neytendavernd augljósasta málið, þ.e. að styrkja neytendur á þeim markaði. Það er stutta svarið. Stóra myndin snýr að því að við erum að viðhalda EES-samstarfinu. Hins vegar eigum við alltaf — og þess vegna höfum við eflt hagsmunagæsluna stórlega — að gæta hagsmuna okkar, bæði í EES-samstarfinu og annars staðar en ekki síst í EES-samstarfinu.