149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. ráðherra skil ég betur taugaveiklunina sem við skynjum hér í salnum hjá hv. þingmönnum samtryggingarflokksins. Þeir eru mættir algjörlega tómhentir til leiks. Meira að segja ráðherrann sjálfur, hæstv. ráðherra, flutningsmaður málsins, hefur ekkert nýtt fram að færa. Hann hraðles gamlan embættismannatexta og bætir svo við gömlu rullunni sinni, sem hann taldi örugglega að væri voðalega sniðug þó að hún væri uppfull af hreinum ósannindum, eins og bent hefur verið á, rullunni sem gengur út á að kenna öllum öðrum um, að það sem hann er að gera sé í raun öllum öðrum að kenna en honum. Svo er það hin dæmalausa ræða hans um fund með David Cameron, að þar hafi verið samþykkt að leggja sæstreng. Þvert á móti var samþykkt að skoða lagningu til að sýna fram á að það hentaði ekki.

Ég ætla ekki að elta ólar við hv. þingmann. [Hlátur í þingsal.] Taugaveiklunin gerir enn vart við sig og ég skil hana. Eftir að hafa hlýtt á ræðu ráðherra skil ég tilhneiginguna hjá sumum hér til að bregðast við með því að hlæja vandræðalega. (Forseti hringir.) Ég ætla að reyna að hlífa ráðherranum við of erfiðum spurningum og vonast til þess að hann treysti sér til að svara án hins hefðbundna skætings. (Forseti hringir.) Ég vil einfaldlega spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna vill hann (Forseti hringir.) innleiða þennan orkupakka? Hverjir eru kostirnir við það? Og í öðru lagi: Hvers vegna vill hann alls ekki ræða málið aftur í sameiginlegu EES-nefndinni?

(Forseti (GBr): Forseti vill biðja ræðumenn, alla sem einn, að halda tímamörk.)