149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru tímamót því að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur hér og útskýrir að hann hafi sett á fót vinnuhóp — og hver sem er getur talað við Google frænda og fengið fréttatilkynningu um þann vinnuhóp — til að undirbúa lagningu sæstrengs og skoða það af því að hann hafi alls ekki viljað það. Þetta hefur aldrei áður verið gert í sögunni, [Hlátur í þingsal.] þetta eru söguleg tímamót. Og talandi um ósannindi, virðulegi forseti, held ég að hv. þingmaður ætti að líta sér nær. Hann væri maður að meiri ef hann gengist við því að hafa haft mjög mikinn áhuga á að leggja sæstreng. Það vissu allir. (Gripið fram í.)Hv. þingmaður hittir forsætisráðherra Breta og setur á fót vinnuhóp til að skoða lagningu sæstrengs og hann heldur því fram að það hafi verið vegna þess að hann hafi ekki haft neinn áhuga á því. [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að bæta neitt í þetta. Varðandi þær spurningar sem lagðar voru fram hefur þeim verið margsvarað (Forseti hringir.) og hv. þingmaður veit það. En hann þarf líka aðeins að fara að skoða hvernig hann ætlar að vinna sig út úr sinni eigin söguskýringu. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem gengur alls ekki upp.