149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður virðist hafa kosið að misskilja það sem ég spurði hann um vegna þess að hann sjálfur valdi að vitna til örfárra álitsgerða en ekki annarra. Hann segist hafa lesið mikið um það sem Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hafi haft fram að færa. Þá þarf ég að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi lesið minnisblað það sem hann hafði með sér á fund utanríkismálanefndar sem hv. þingmaður sat ekki. Sá lestur gæti kannski opnað augu hv. þingmanns fyrir ýmsu öðru en hann er núna opinn fyrir.

Það er ekki almennur siður á Alþingi Íslendinga að vitna til einhvers sem er í almennum umræðum úti í bæ og gera það að rökum í rökræðum við þá sem hér sitja og sem þeim hefur verið ætlað að segja eða halda fram. Ég skil ekki alveg hvað þingmaðurinn er að fara með því.

Ég vil hins vegar spyrja þingmanninn einnar lykilspurningar: Hver er hagur Íslendinga af því að taka upp þriðja orkupakkann? Í hverju felst hann? Hvað er það sem gerir það nauðsynlegt að við tökum orkupakka þrjú upp í íslenska löggjöf?

Nú ætla ég að benda á að þeir fræðimenn sem mest hefur verið vitnað hér til og hv. þingmaður hefur gert líka, og ekki að ófyrirsynju, þetta eru mætir menn, völdu sjálfir að segja að fyrsta og réttasta skrefið væri að senda málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta var þeirra fyrsta leið. Ríkisstjórnin fór næstbestu leiðina. Þá hlýt ég að spyrja: Hefur hv. þingmaður ekki (Forseti hringir.) það álit á þessum ágætu fræðimönnum að hann sé tilbúinn að hlusta á þessi ráð?