149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef komið hingað í þessa umræðu og hlakkað til að heyra rökstuddar fullyrðingar um kosti og galla þriðja orkupakkans og þar bið ég helst um nákvæmni. Í ræðu hv. þingmanns var talað um verð og þar sakna ég í umræðunni útskýringar á því af hverju orkuverð myndi hækka eða lækka.

Nú hef ég skoðað — eyddi t.d. gærkvöldinu í það — það sem kallast uppboðssvæði og „merit order“ eða forgangsröðun orku sem kemur inn á orkumarkaðina, hvernig Nord Pool virkar og var skipt upp í verðsvæði o.s.frv. En mig langar til að heyra útskýringarnar á því og þessa nákvæmni frá stjórnarliðum á því hvernig kerfið virkar þá, annaðhvort í átt til lækkunar eða hækkunar á verði.