149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil áhyggjur fólks mjög vel af því að farið hefur verið fram og til baka með það að verð á raforku komi til með að hækka eða að markmiðið sé að jafna raforkuverð yfir alla Evrópu eða, eins og var sagt síðan, að stefnan sé að lækka það. Ég heyri þau þrjú sjónarmið hér og þar, t.d. í þeirri sérfræðiskýrslu sem kom nýlega út á vegum Orkunnar okkar. Það er þrennt sagt; að stefnan sé að lækka, að orkuverð verði jafnara og orkuverð hækki. Ég er dálítið týndur þegar ég heyri svona misvísandi skilaboð.

Ég kynnti mér málið vel og tel mig hafa ágætan skilning á því hvernig þessi uppboðsmarkaður virkar og hvernig kerfið sem slíkt virki. En mig langar að heyra það fyrst frá stjórnvöldum til þess að ég geti borið saman við þau og kalla því einfaldlega eftir því að stjórnarliðar kynni sér nánar hvernig þetta kerfi virkar og kynni það fyrir okkur þannig að við getum hafið þá umræðu þaðan.