149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:19]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að vera stjórnvald. Ég hafði ekki áttað mig alveg á því að ég væri orðinn stjórnvald en gott og vel. Það skiptist í löggjafar- og framkvæmdarvald og það er framkvæmdarvaldið í þessu tilviki sem ætti að standa fyrir svörum. En auðvitað viljum við öll, um það er sennilega þverpólitísk samstaða, lækka raforkuverð til almennra notenda á Íslandi. Það er kvartað yfir því að það sé of hátt og fyrir því er eflaust flugufótur og meira en það. Þá finnum við leiðir til þess. En að þessi þriðji orkupakki fari í hina áttina held ég að sé skrýtið. Ég hef skoðað línurit yfir orkuverð í Evrópu. Danmörk og Holland eru mjög há, við erum í miðjunni og síðan koma t.d. Austur-Evrópuríkin með mjög lágt orkuverð, miklu lægra en á Íslandi. Það snýst auðvitað um kaupmátt. Orkuverð í hverju landi ræðst af launakjörum og öðru slíku þannig að það er ekkert skrýtið þó að mörg lönd af þeim 28 sem eru í Evrópusambandinu séu langt fyrir neðan okkur í orkuverði.