149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var þrennt sem ég tók sérstaklega eftir í þessari ræðu hv. þingmanns. Það voru fullyrðingar eins og blekkingar, umdeilanlegt og popúlistar, og átti hann þar væntanlega við þingmenn Miðflokksins, ég skildi hann á þann veg.

Hv. þingmaður talar um að hræða fólk með blekkingum. Ég fór margsinnis yfir það í umræðu um þetta mál hver reynslan af orkupakka eitt og tvö væri. Það hlýtur að þurfa að skoða reynsluna af orkupakka eitt, hv. þingmaður, í samræmi við orkupakka þrjú og svo fjögur, það þarf að skoða heildarmyndina. Og hver er reynslan? Hækkun á raforku. Hún hækkaði um 10% strax við innleiðingu 2003 og síðan hefur hún, þegar tekið er á raungildi til dagsins í dag, hækkað um 7–8%. Á ákveðnum köldum svæðum hækkaði raforka til húshitunar um allt að 74–90%, hv. þingmaður. Hvern er verið að blekkja? (Forseti hringir.) Er þetta góð reynsla af orkupakka eitt og tvö, hv. þingmaður? Getur hv. þingmaður svarað því.?