149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér orkupakka þrjú og nú skulum við ræða orkupakka eitt og tvö líka. Það virðist vera mjög vinsælt. Það má vel vera og ég ber ekki brigður á það, enda var minn flokkur víst á móti þessum orkupökkum á sínum tíma, að orka hafi hækkað í kjölfar fyrsta og annars orkupakka, sennilega vegna aukins kostnaðar þessara fyrirtækja við að slitna í sundur o.s.frv. Ég þekki þá sögu ekki, orsakirnar sjálfar, en ég veit hins vegar að búið er að gera úttektir á raforkuverði á Íslandi, t.d. hefur Efla gert það, þar sem kemur í ljós að orkuverð á Íslandi hefur ekki hækkað óeðlilega, það er kannski það sem skiptir okkur máli.

Varðandi köldu svæðin, þetta dæmi sem hv. þingmaður nefnir varðandi Suðurnes, þá var í gildi á ákveðnum köldum svæðum á Suðurnesjum ákveðið samkomulag milli HS Orku og nokkurra aðila. Það varð vissulega að slíta því. En almennt séð er ekki rétt að orkuverð hafi hækkað óeðlilega mikið á köldum svæðum.