149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Þar sem tíminn er knappur ætla ég að sleppa því að fara í ítrekun, við eigum þetta á göngunum einhvern tíma seinna.

Seinna atriðið sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er hvort hann meti það sem svo — nú hefur hann sett sig vel inn í málið — að innleiðing þriðja orkupakkans hafi afleidd áhrif á einhverja aðra löggjöf eða þá að réttindi sem fyrirtæki eða einstaklingar geta byggt á annarri löggjöf en þriðja orkupakkanum afmörkuðum, hvort þriðji orkupakkinn geti haft slík áhrif. Þá vísa ég sérstaklega til að mynda í sjónarmið sem snúa að því að menn geti byggt skaðabótakröfur á grundvelli fjórfrelsisreglnanna leggist stjórnvöld á síðari stigum þvert gegn markmiðum þriðja orkupakkans, t.d. með því að leggja stein í götu lagningar sæstrengs sem (Forseti hringir.) erlendur aðili gæti haft áhuga á að leggja.