149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:29]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvort þriðji orkupakkinn hafi einhver afleidd áhrif á aðra löggjöf? Ég gæti alveg ímyndað mér að það þurfi að styrkja raforkueftirlit á Íslandi almennt séð út frá því að ef á að vera virk samkeppni þurfi að gera það. Það getur því vel verið að það hafi áhrif á þann máta.

Hvað varðar sæstreng er svarið einfaldlega nei. Það er grundvallarmisskilningur að fjórfrelsið þvingi lönd eða fullvalda ríki til að ráðstafa auðlindum sínum með einhverjum sérstökum hætti, vegna þess að sæstrengur hefur enga þýðingu nema það sé til rafmagn í hann. Að tengja saman fjórfrelsi og sæstreng er einfaldlega ekki hægt. Og það sem meira er, þriðji orkupakkinn snýst um það að ACER, í tilviki okkar ESA, ef við værum tengd, hefði eftirlit með þeim samningum sem við myndum gera, t.d. við Bretland. (Forseti hringir.) Þetta er eftirlitsaðili, þetta er ekki aðili, og það er ekkert til í Evrópusambandinu sem toppar það. Þetta er ekki aðili sem hlutast til um virkjanir eða flutning, hvorki innan lands né utan, nema um sé að ræða samningsbrot tveggja fullvalda ríkja.