149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst svar við síðustu spurningunni: Ég held ekki að það myndi skipta neinu máli hvort við værum í stjórnarandstöðu eða ekki hvað varðar þriðja orkupakkann.

Svo að þessari sameiginlegu orkustefnu. Hún gengur fyrst og fremst út á tvennt, eða við skulum segja þrennt, og það er það að ríki sjái af orku til annarra sé það mögulegt, að flutningsleiðir þessarar orku séu greiðar og síðan að hlutfall grænnar orku hækki hægt og bítandi. Þetta eru meginstefin í orkustefnu Evrópu og það er ekkert til sem heitir orkusamband Evrópu. Það er bara þvaður. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður hafi sagt það, þetta er bara tilvitnun í Orkuna okkar. Það má alveg eins líta á sameiginlega stefnu varðandi orku og gaslindir eða aðrar auðlindir. Fjórfrelsið byggir ekki á þvinguðu framsali á auðlindum, þvinguðu framsali á vöru eða þvinguðum tengingum. Það er tilbúningur.