149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í raun er það þetta sem er að veltast um í mér núna, það sem mér finnst vera mikil hugarfarsbreyting. Ég hafði áður litið á Vinstri græn sem mikla fullveldissinna og það er eiginlega það sem ég er aðallega að hugsa um og þá í þessu tilviki. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að við munum fara inn á sameiginlegan orkumarkað í Evrópu? Þá er ég ekki að meina núna með tilkomu þriðja orkupakkans. Ég hef aldrei velkst í vafa um það að við erum fullvalda ríki og eigum sjálf að taka ákvarðanir um lagningu sæstrengs eða annað. Hins vegar hefur það alltaf verið spurning hver geti hamlað því. Er íslenska ríkinu heimilt að hamla samkeppni á markaði og meina aðila sem á vörur sem hann vill koma á markað að gera það? Er íslenska ríkinu heimilt að gera það og er um leið hægt að staðhæfa að það baki sér ekki um leið skaðabótaskyldu?