149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni umhyggjuna fyrir Vinstri grænum, ég hafði ekki talið að hún væri neitt sérstaklega mikil. En það skiptir verulegu máli um hvað við erum að tala. Ég er jafn mikið á móti sæstrengslagningu og hv. þingmaður og í ræðu minni áðan gerði ég grein fyrir af hverju og ætla ekki að endurtaka það.

Við getum að sjálfsögðu hamlað samkeppni. Af hverju í ósköpunum ættum við ekki að geta gert það? Segjum að hingað væri kominn sæstrengur og við vildum ekki virkja fleiri háhitasvæði til að auka framboðið í gegnum sæstrenginn, værum við þá að hamla samkeppni ef við notuðum innlend lög til þess að gera það þannig að við héldum óbreyttri framleiðslu? Að sjálfsögðu ekki. Við erum fullvalda ríki og við höfum yfirráð samkvæmt EES-samningnum (Forseti hringir.) yfir orkuauðlindunum. Það stendur í honum, hv. þingmaður.