149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Það er hressandi að fá þennan vinkil inn. Mig langar í fyrri umferð að spyrja aðeins um fjöldann á undirskriftalistanum og síðan þessar hugmyndir um 10% kosningarbærra hér á landi. Ég vil byrja á að segja að það kemur mér ekki á óvart að það hafi ekki náðst þótt ég taki undir að Orkan mín og þeir sem stóðu að þeirri undirskriftasöfnun séu gríðarlega vel skipulagðir og greinilega vel efnum búnir eða fjármagnaðir.

Það sem ég er að velta fyrir mér í ljósi þess hvernig orðræðan um þetta mál hefur þróast er hvort hv. þingmaður sé á þeirri skoðun að það sé fjöldinn einn sem dugar til eða hvort það séu einhverjar skorður eða reglur, einhverjar kröfur um það hvernig framsetning á slíkri beiðni sé háttað, þ.e. orðalagið. Ég sé fyrir okkur núna að beiðnin um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi þetta tiltekna mál sé orðuð með tilvísan í þann fjölda útúrsnúninga og falsaðra fullyrðinga um málið sem hafa komið fram. Erum við þá að fara að tala (Forseti hringir.) um þjóðaratkvæðagreiðslu um það? Hver ákveður þetta nákvæmlega og hvernig er því best til haga haldið að mati hv. þingmanns? Hver ákveður orðalagið á slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu?