149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru ákveðnar skorður settar við það í frumvarpi um nýja stjórnarskrá og stefna okkar yrði þá sú að þær takmarkanir myndu einnig gilda. Þær eru t.d. að málið skuli varða almannaheill, það getur ekki verið um ríkisborgararétt og getur ekki verið um fjárlögin og slíkt.

Hvað varðar hins vegar kynningu á málinu, sem er það sem mér skilst að hv. þingmaður sé að spyrja út í, sé ég fyrir mér að það yrði gert samkvæmt reglum forsætisnefndar sem hún hefur sett um kynningu á málum sem eru til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þær reglur eru til og eru settar af forsætisnefnd eins og er. Breytingartillögurnar sem ég hafði undirbúið, ef ske kynni að flokkurinn myndi vilja fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, gera ráð fyrir því að kynning myndi byggja á þeim.

Hins vegar til að svara bókstaflega er spurningin einfaldlega: Hérna eru þau mál sem Alþingi hefur samþykkt. Á að samþykkja þau eða ekki? Já eða nei?

Nákvæmlega kynningin á því er stærra útfærsluatriði. (Forseti hringir.) Ég kem kannski betur að því í seinna svari. En þetta er atriði sem varðar í raun fyrst og fremst ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.