149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega andsvarið. Þetta er umræða sem kallar á stærra svið og meiri tíma og fær það vonandi fyrr en síðar. Hugmyndin sem hv. þingmaður kemur fram með er sem sagt að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tiltekið mál sem hefur verið afgreitt héðan þannig að það verður ekki togast á um orðalag eða annað slíkt. Gott, þá skil ég það rétt.

Síðan er ég með vangaveltur frekar en spurningu. Eins æskileg og ný stjórnarskrá er, a.m.k. mörg ákvæði hennar, t.d. hvað varðar náttúruauðlindirnar okkar, eignarhaldið, er ég ekki jafn bjartsýn og mér heyrist hv. þingmaður vera um að þar með verði bundinn endi á hártoganir fræðimanna um túlkun á hinum ýmsu málum.

Í skilningi þessa sem kom fram er það nokkuð sem verður tekist á um áður en til þjóðaratkvæðagreiðslunnar kæmi.

Ég hef ekki beinlínis neina spurningu en nánari útskýringar eru þó vel þegnar.