149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá vandi sem hv. þingmaður nefnir er að mínu mati miklu stærra atriði og í raun og veru stóra atriðið þegar kemur að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem hljóma meira eins og skoðanakönnun, t.d. ef við myndum einfaldlega spyrja: Á að samþykkja orkupakka þrjú eða ekki? Eða eins og hefur verið spurt í skoðanakönnunum: Ert þú hlynntur eða hlynnt meira framsali á auðlindum? Þetta eru ekki spurningar sem eru nothæfar til atkvæðagreiðslu í þingsal. Í grunninn þarf þjóðaratkvæðagreiðsla alltaf að hafa sömu möguleika og við höfum í þingsal, þ.e. já eða nei við tilteknum opinberlega birtum skýrum gögnum, ályktunum og tillögum.

Það er að mínu mati þetta sem fór svo hrikalega úrskeiðis með Brexit. Þar var haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla án þess að nein sýn væri á það hvað nákvæmlega væri verið að samþykkja eða hafna. Svo er eitthvað samþykkt og þá er öll útfærsla eftir. Þetta er hættan við ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur og þess vegna er mér svo annt um að þær séu bindandi. En það er líka ekkert mál að gera það ef það er bara ákveðið að gera það. Af einhverjum ástæðum hefur Alþingi almennt verið mjög hrætt við að hafa (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslur bindandi.

Því miður hef ég ekki meiri tíma til að fara út í hártoganir fræðimanna, en ég vil segja: Það er betra að við eigum ekki allt undir þeim, það er allt í lagi að þær séu teknar með í reikninginn.